Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:47:57 (4020)

1999-02-25 12:47:57# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég var að gagnrýna var ekki þátttaka í þessum stofnunum. Ég er ekki með neinar tillögur t.d. um að við hættum samskiptum við Alþjóðabankann eða Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða aðra slíka aðila. Ég gagnrýni það hins vegar, og er ekki einn um það og það held ég að hæstv. utanrrh. gæti þó a.m.k. viðurkennt hvernig sem hann vill meta málflutning minn að öðru leyti, og ég held að hæstv. ráðherra hljóti að hafa orðið þess var að ég er ekki einn um að gagnrýna frammistöðu og nálgun t.d. þessara stofnana. Ég er ekki einn um að gagnrýna þann halla á lýðræðislegri og opinni nálgun gagnvart t.d. vandamálum þriðja heimsins og þróunaríkjanna sem almennt er uppi í umræðunni að þröngir hagsmunir Vesturlanda með Bandaríkin í broddi fylkingar feli í sér. Það er mjög útbreidd skoðun víðast hvar annars staðar enn þá í valdaelítunni á Vesturlöndum að menn séu í raun og veru að keyra áfram án þess að breyta um stefnu í neinum grundvallaratriðum vitandi vits að það ber dauðann í sér. Við getum ekki haldið svona áfram í marga áratugi fram á næstu öld. Ég þekki engan einasta vísindamann sem reynir að halda því fram lengur. Það verður að breyta í grundvallaratriðum um áherslur ef næsta öld á ekki að verða öld þvílíkra hörmunga að leitun verði að öðru eins. Og það er margt sem kemur þar til.

Ég sakna þess í umræðum um þessi mál, þó ekki sé annað til að byrja með, að menn opni meira fyrir umfjöllun um þetta því að þar hljótum við að vonast til að umræðurnar leiði þó til einhverra breytinga og það sé upphafið, t.d. hvaða stofnanir aðrar geti lagt þarna eitthvað af mörkum. Það er auðvitað mikill fjöldi stofnana, m.a. ýmsar aðrar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna sem tomma ekki móti fjármálastofnunum og valdinu sem liggur í efnahags- og hernaðarhagsmununum, matvæla- og þróunarstofnanirnar, barnastofnanirnar og aðrar slíkar, þær tomma ekkert vegna þess að valdið liggur í hernaðar- og efnahagshagsmununum. Það eru háskólar og rannsóknastofnanir og aðrir slíkir aðilar úti um víða veröld sem eru með þessi mál á dagskrá en tala fyrir daufum eyrum vegna þess að hinir vestrænu efnahags- og hernaðarhagsmunir ráða ferðinni, ráða ríkjum og yfirgnæfa allt annað.