Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 13:38:43 (4023)

1999-02-25 13:38:43# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Þegar við lítum til baka sjáum við hversu ótrúlegar breytingar hafa átt sér stað í öryggismálakerfi Evrópu á síðustu árum. Það sem hæst ber þar er að sjálfsögðu fall kommúnismans og upplausn Varsjárbandalagsins og svo auðvitað sameining Þýskalands. Við þessar breytingar hafa ríki sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum reynt að bindast vestrænum ríkjum sterkari böndum og þau hafa talið öryggismálum sínum best komið með því að sækja um aðild að NATO og einnig að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er rétt sem kemur hér fram og hefur komið fram í morgun að aðild okkar að NATO skipar okkur í hóp þeirra ríkja sem hafa hvað mest áhrif á öryggisstefnu í Evrópu og er það mjög vel. Því hefur stefna Samfylkingarinnar í þessum málum skotið nokkuð skökku við, en það kom sérstaklega fram í drögum að málefnasamningi þeirra eða málefnavinnu, að þeir teldu að við ættum að standa utan hernaðarbandalaga. Það verður gaman að sjá í hvaða jarðveg þessi stefna fellur, t.d. í Reykjaneskjördæmi þar sem menn hafa yfirleitt talið veru okkar í NATO mjög mikilvæga. Manni er líka spurn hvort Samfylkingin hafi þá einhverja sérstaka verkáætlun fram undan varðandi það að tryggja því fólki atvinnu sem hefur unnið við Keflavíkurflugvöll.

Hvað NATO varðar hefur einnig komið fram í umræðunum að við Íslendingar erum hlynnt því að Eystrasaltsríkin verði meðal þeirra sem næst verða tekin inn í NATO. Það leiðir hugann að stefnu Svía og Finna varðandi NATO. Þeir hafa einnig verið frekar hlynntir því að Eystrasaltsríkin fái aðild bæði að Evrópusambandinu og NATO, og verði hluti af hinum vestrænu ríkjum. Þeir hafa samt sjálfir ekki séð sér fært að ganga í NATO og manni finnst hálfgerður tvískinnungur vera í þessari afstöðu. En svörin sem maður fær frá fulltrúum bæði Svía og Finna eru yfirleitt þau að þeir verði sjálfir að ákveða og ráða því hvernig þeirra utanríkisstefna er, og það er alveg rétt, en að sjálfsögðu er miklu líklegra að hægt væri að ná Eystrasaltsríkjunum inn í NATO ef Svíþjóð og Finnland væru þar fyrir, ef ekki væri þetta gap sem er nú. Ég bind vonir við að Svíar og Finnar gangi í NATO þótt síðar verði, hugsanlega eftir tvö til fjögur ár eða eitthvað svoleiðis.

Það er rétt sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. að EES-samningurinn hefur verið okkur mjög mikilvægur. Á sínum tíma var ég mikill fylgismaður þess að við gengjum inn í EES og sé ekki eftir því. Þróunin hér hefur verið eins og í Evrópu. Við erum, má segja, einsleitt svæði með Evrópu og ég held það sé mjög mikilvægt. Ég held hins vegar að bæta mætti þá vinnu sem fram fer hér í þinginu varðandi tilskipanir sem koma frá EES og frá Evrópusambandinu. Við erum allt of ódugleg við að taka málin inn í þingið til kynningar á upphafsstigi. Við fáum tilskipanirnar á endanum í gegnum ráðuneytin, yfirleitt í formi lagafrv., en þingmenn koma allt of lítið að undirbúningi mála. Þetta er nokkuð sem við höfum rætt bæði í utanrmn. og víðar, en engin sérstök niðurstaða er komin í það mál. Í sumum þingum eru sérstakar Evrópunefndir. T.d. er í Noregi sérstök Evrópunefnd sem tekur þessi mál til skoðunar. Þar eru mál í miklu fastari skorðum en hjá okkur. Nú er ljóst að Evrópusambandið mun stækka á næstu árum og talsvert er rætt um það, t.d. á norrænum vettvangi, að með stækkun Evrópusambandsins sé líklegra að Norðurlöndin sem eru í Evrópusambandinu muni koma meira fram sem ein blokk innan sambandsins. Hingað til hafa þau kosið að gera það ekki heldur tala með sinni eigin rödd, ef svo má segja. Talsverðar líkur eru á því að í mun stærra Evrópusambandi munu Norðurlöndin standa meira saman sem blokk, hugsanlega með fleiri ríkjum, hugsanlega með Póllandi, hugsanlega með Eystrasaltsríkjunum í framtíðinni, Þýskalandi og öðrum slíkum nágrannaríkjum.

Hér hefur verið rætt um það að sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sé helsti þröskuldurinn á leið okkar til aðildar að sambandinu og það er rétt. Hins vegar hafa margir bent á að e.t.v. sé þetta ekki sá stóri þröskuldur sem í veðri hefur verið látið vaka því ef við gengjum í Evrópusambandið --- sem ég er reyndar ekki að boða hér --- en ef svo færi mundum við trúlega taka jafnmikinn kvóta og við gerum nú. Að vísu mundum við ekki ákveða hann sjálf heldur yrði kvótinn ákveðinn í Brussel, en tekið yrði tillit til þeirrar vísindaráðgjafar sem við höfum hingað til á síðustu árum tekið tillit til þannig að það væri engin mjög stór breyting þar á og ólíklegt væri að aðrar þjóðir, t.d. Portúgalar, Spánverjar o.fl., fengju kvóta í okkar lögsögu þar sem engin söguleg hefð er fyrir því. Breytingin er því e.t.v. ekki eins svakalega mikil og menn hafa talið. En ég er sammála því sem fram kemur í skýrslu utanrrh. að við eigum að halda hurðinni opinni, skoða þessi mál, reyna að kynna okkar málstað á vettvangi Evrópusambandsins og reyna að afla okkur skilnings á okkar sérstöðu þar.

[13:45]

Innan Evrópusambandsins hafa Finnar verið sérstaklega duglegir við að koma hugtaki á flot sem er ,,norðlæga víddin``. Það var einmitt samþykkt vegna áherslu Finna á að móta sérstaka stefnu innan Evrópusambandsins um norðurhluta Evrópu, sérstaka verkáætlun, eitthvað svipað og gert hefur verið fyrir suðursvæðið. Mér finnst mjög gott að þetta skref hafi verið stigið vegna þess að maður sér hvað er að gerast í Norður-Evrópu og í Rússlandi. Þessi verkáætlun á m.a. að beinast að Rússlandi. Þar eru mjög miklar breytingar yfirstandandi núna. Því miður varð algjört efnahagshrun í Rússlandi 17. ágúst í fyrra og mál eru í mjög slæmum farvegi þar, efnahagsmál, öll velferðarmál, umhverfismál og þannig mætti lengi telja. Hin norðlæga vídd á að vera hluti í því að reyna að beina sjónum Evrópusambandsins til þessa svæðis.

Það er alveg ljóst að í dag er algjör velferðargjá á milli landa, t.d. á milli okkar á Norðurlöndunum og Rússlands, Eystrasaltsríkjanna og Póllands. Þar er mjög djúp velferðargjá og það verður ekki lifað við hana. Við munum ekki una henni til framtíðar. Það er ekki hægt að afbera þessa gjá til frambúðar. Og það er alveg ljóst að ef Norðurlöndin og Evrópusambandið og allir sem vettlingi geta valdið, Bandaríkjamenn og fleiri, koma ekki og aðstoða við að minnka þessa velferðargjá, þ.e. að hækka standardinn hjá þessum ríkjum, þá stefnir í mikinn voða, bæði í öryggismálum og í öðrum málum. Ef dregin er upp dökk mynd af þessu og gefið að ef ekkert lagist í framtíðinni, t.d. í kringum St. Pétursborgarsvæðið þar sem margar milljónir Rússa eru, þá má reikna með stórfelldum fólksflutningum þaðan yfir finnsku landamærin. Fólk mun banka þar upp á og vilja koma yfir í betri aðstæður og enginn skal segja mér að Finnar fari þá að beita þetta fólk ofbeldi. Þá er ekkert annað hægt að gera en að segja: Gjörið þið svo vel. Hér er allt opið. Komið þið hingað yfir. En ég held að enginn vilji sjá þá stöðu. Því er um að gera að reyna að minnka þá velferðargjá sem er þarna á milli.

Schengen-samstarfið er hluti af Evrópusambandinu og ég styð að við göngum inn í það samstarf, inn í Schengen-samstarfið. Ég tel pólitískt mjög mikilvægt að við liggjum þétt upp að Evrópusambandinu, ef svo má segja, í öllu sem hægt er að taka þátt í og reynum að fylgja því í hvívetna, án þess að ég sé að boða inngöngu í það. Það er alveg ljóst að sú samvinna sem felst í Schengen-samstarfinu er mjög jákvæð og það er úrelt að tala um að landamæri geti hindrað glæpi. Ég átti þess kost að hlusta á danskan yfirlögregluþjón sem hefur tekið mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi og í undirbúningi Schengen-samstarfsins. Hann lýsti því mjög vel að landamæri hindra ekkert glæpi í dag. Það er samvinna lögreglumanna og samvinna lögregluyfirvalda sem hindrar glæpi. Menn muna eftir því þegar ákveðnir mótorhjólaklúbbar voru í miklum bardaga, m.a. á Norðurlöndunum, að þá var það ekki landamæraeftirlit sem hindraði nokkurn mann í þeirri glæpastarfsemi. Það var samvinna lögreglunnar við að hafa uppi á þessu fólki og eltast við það sem dugði.

Varðandi önnur atriði sem snúa að Evrópusambandinu þá langaði mig að minnast á Evrópska myntbandalagið. Að mínu mati er mjög spennandi þróun að verða í því. Við uppfyllum auðvitað öll skilyrði og hefðum þess vegna getað hoppað inn í það hefðum við verið í Evrópusambandinu sem við erum ekki. En við þurfum að fylgjast mjög vel með þeirri þróun sem á sér stað þar. Í dag er, að mig minnir, um einn þriðji af okkar gjaldeyrisviðskiptum við þau lönd sem verða í Myntbandalaginu þannig að það er ekkert stórvægilegt. En fari Svíar inn og Bretar og Danir þá er ljóst að þetta hlutfall fer upp í tvo þriðju hluta okkar gjaldeyrisviðskipta sem er mun meira mál fyrir okkur. Það er ljóst að við þurfum einhvern veginn, býst ég við, til framtíðar að tengjast þessu myntbandalagi.

Ég fagna því mjög sem kemur hér fram að við höfum aukið fjármagn til þróunarmála. Það hefur hækkað í 234 millj. kr. á þessu ári eða um þriðjung frá því í fyrra. Ég sé að það á líka sérstaklega að huga að mannréttindum kvenna og barna. Ég held að það sé einmitt sú leið sem eigi að fara og bendi á það, og hef gert það áður í ræðum mínum, að þróunaraðstoð sem veitt er til kvenna virðist skila sér mun betur en mörg önnur þróunaraðstoð.

Við höfum tekið á móti flóttafólki, sérstaklega frá fyrrverandi Júgóslavíulöndum og það er mjög gleðilegt hversu vel hefur tekist til með þær aðgerðir okkar í þeim efnum. Mér virðist að það hafi gengið mjög vel.

Þar sem ég sé að tími minn er á þrotum langar mig til að nýta tækifærið og spyrja hæstv. utanrrh. út í atriði sem ég hef reynt að fylgjast með og var tekið upp á sínum tíma í svokallaðri framtíðarnefnd, þ.e. um framtíð utanríkisþjónustunnar, en það varðaði aðstæður maka þeirra sem vinna í utanríkisþjónustunni. Nú er alveg ljóst að það er talsvert mikið mál að vera í utanríkisþjónustunni, sérstaklega fyrir makana og börnin. Það þarf að flytja landa á milli, oft með lítil börn. Ég þekki slík dæmi og mér finnst reyndar stundum furðulegt hvað fólk leggur mikið á sig við að flytja lítil börn á milli landa á þriggja ára fresti, skipta um skóla, skipta um barnaheimili, skipta um vinahóp og allt sem því fylgir. Þetta er mikið rask. En mér skilst að búið sé að gera ýmislegt til þess að bæta úr, eins og það að nú séu borguð um 90% af skólagjöldum þessara barna. Það er mjög gott. Makarnir, og þá sérstaklega konurnar, hafa í gegnum árin ekki fengið vinnu við sitt hæfi. Það er erfitt að hlaupa á milli landa og fá vinnu og lífeyrismál hafa ekki verið í nógu góðum farvegi. Því vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Í hvaða farvegi eru lífeyrismál maka í utanríkisþjónustunni? Mér skilst að eitthvað sé verið að skoða þau mál en ég teldi mjög æskilegt að tekið yrði fast á þeim málum af því að það er að sjálfsögðu talsverð fórn fyrir makana að fara svona á milli landa og eiga minni möguleika á að afla sér tekna og stunda vinnu en aðrir.