Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:18:01 (4029)

1999-02-25 14:18:01# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar umhverfismálin eru annars vegar, vilji menn taka tillit til þeirra, þá kosta það okkur eitthvað. Menn mega ekki falla fyrir einföldum efnahagslegum rökum og bera þau fram eins og hæstv. ráðherra er hér að gera. Að tefla því fram að óhjákvæmilegt sé að fórna svo og svo miklu í íslenskri náttúru og valda mengun í landinu svo við getum haft það bærilegt. Ég hafna þessari röksemdafærslu. Þetta eru að mínu mati falsrök. Það er mjög brýn nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að átta okkur á því að ef við ætlum að halda hér uppi ímynd umhverfisvænnar þjóðar og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, þá getur það þurft að kosta okkur eitthvað í krónum og aurum, ekki bara okkur heldur heimsbyggðina í heild.

Varðandi spurninguna um góð samskipti við Evrópusambandið, þá getur hver og einn svarað því sjálfur hvort óhjákvæmilegt sé að stefna að aðild að Evrópusambandinu til þess að iðka þessi góðu samskipti eða hvort hann ætlar að gera það sem Íslendingur, með Ísland sem fullvalda þjóð. Á það fullveldi á að ganga stig af stigi og mér heyrist að Framsfl. og forusta hans sé reiðubúin að fórna því fullveldi ef svo ber undir.