Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:37:06 (4035)

1999-02-25 14:37:06# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á þá skýrslu um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gerði að umræðuefni. Það er rétt sem hv. þm. sagði að það sem hér er lagt á borð er ekki útfært í neinum smáatriðum. Farið er yfir aðalatriðin og áframhaldandi vinna þarf að eiga sér stað í þessu sambandi. Ég hafði vænst þess að hér kæmu fram skoðanir frá hv. alþingismönnum um hvernig standa ætti að þessu starfi og ég lýsti því yfir í utanrmn. í gær að ég væri mjög opinn fyrir því að ýmsir kæmu að því starfi, bæði af hálfu Alþingis eða með öðrum hætti eftir því sem hugmyndir koma fram um. Ég fagna því sérstaklega að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru fúsir til slíks samstarfs og það mun ekki standa á utanrrn. að reyna að skapa vettvang fyrir það.