Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 14:41:03 (4038)

1999-02-25 14:41:03# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að nú í fyrsta skipti í þessum sal yrði hún vör við breytingar á umræðunni um málefni Atlantshafsbandalagsins og öryggis- og varnarmál og nú yrðum við að fara að ræða þessi mál út frá breyttum aðstæðum, nú loksins. Þá vil ég spyrja: Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir því að frá árinu 1991 er búið að vinna á vegum Atlantshafsbandalagsins að endurskoðun á nánast allri starfsemi bandalagsins og tengslum bandalagsins við ríki Evrópu sem utan þess standa og sérstaklega fyrrverandi ríki Sovétríkjanna? Við höfum tekið þátt í þeim umræðum og þær umræður hafa farið fram á Alþingi á hverju einasta ári. Hvar hefur hv. þm. verið þegar við höfum rætt þetta í skýrslum utanrrh. á hverju einasta ári?