Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:18:47 (4049)

1999-02-25 15:18:47# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að mjög mikilvægt er að sú stefnumörkun hafi náðst fram í Evrópusambandinu um norræna áherslu sem felst í norrænu víddinni. Það sem ég var að velta fyrir mér, af því að ég er búin að hlusta á umfjöllun um það hvaða áhrif þetta gæti haft á Norðurlönd og Norður-Rússland á samgöngusviðinu, í orkusamstarfi o.s.frv., þá hafa það verið þættir sem ekki eru mjög tengdir okkur og ég hef verið mjög áhugasöm um að reyna að átta mig á þeim. Auðvitað munum við styðja norðlægu víddina gagnvart þessum svæðum en hvernig hún snýr að okkur Íslendingum beinlínis, á eyju norður í Atlantshafi, hef ég ekki alveg áttað mig á.

Við vitum að áhersla í Norðurlandasamstarfinu og Evrópusamstarfinu hefur í ríkum mæli verið á austursvæðið og þegar við á Norðurlöndum eða í Norðurlandasamstarfinu tölum um grannríkin, þá hugsar fólk mjög oft um grannríkin í austri. Þetta hefur verið áhyggjuefni okkar hér norður frá. Þess vegna styð ég þetta mál en legg áherslu á að vita hvernig þetta snýr að okkur á Íslandi.

Ég var búin að heyra um frv. um flóttamennina, að það væri trúlega komið til þingflokkanna. Ég harma að það mál skuli ekki nást fram á þessu þingi, því ekki nást öll þau góðu mál fram sem ráðherrar koma fram með í lokin, þó að það séu mál sem eru okkur stjórnarandstöðunni hugstæð.

Ég spurði líka um hvaða mál Ísland muni láta sig varða á fundi mannréttindaráðsins í Genf. Mun Ísland eiga þar fulltrúa? Mun Ísland taka afstöðu til erfiðustu tillögunnar, sem er um dauðarefsingar í Bandaríkjunum? --- svo ég nefni eitthvað af því sem kom fram í fyrri ræðu minni.