Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:23:12 (4051)

1999-02-25 15:23:12# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða um utanríkismál leiðir í ljós hversu gerbreytt utanríkisstarfið er orðið. Líka það sem fram kemur í ræðu ráðherrans um að aðilar úr viðskiptalífinu hafa í auknum mæli fylgt utanrrh. þegar hann hefur farið til fjarlægara landa og hvernig utanrrn. er farið að styðja við viðskiptahagsmuni og uppbyggingu þeirra á erlendum vettvangi. Þetta þekktist ekki fyrir nokkrum kjörtímabilum. Þetta er nýtt.

Það er líka fremur nýtt að félagasamtök innan lands eru að auka samstarf sitt við utanrrn. á sama hátt og við önnur ráðuneyti. Stjórnsýsla okkar hefur tekið miklum breytingum og starf ráðherra hefur orðið mun víðtækara á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Ekki síst að vinna með frjálsum félagasamtökum og opna skrifstofur sínar fyrir samstarfi innan lands og utan. Þetta er mjög merkilegt og þessi þróun á eftir að verða miklu meiri og örari. Ég er ánægð með þetta.

Ráðherrann svaraði mér fremur litlu um norrænu víddina. Ég mun þá ræða það mál nánar síðar. Ég er mjög sátt við að Ísland skuli verða með fulltrúa á fundinum í Genf. Mér finnst að það sé auðvitað það eina rétta að Ísland styðji tillögur gegn dauðarefsingum almennt og hvar sem er, en ég veit líka að um leið og slíkar tillögur beinast að stóru samstarfsríki, t.d. Bandaríkjunum, þá er það vandasamt, en auðvitað á Ísland að vera sjálfu sér samkvæmt og gera harða kröfu um að dauðarefsingar verði líka afnumdar í Bandaríkjunum.