Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:25:29 (4052)

1999-02-25 15:25:29# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:25]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt Alþingi og taka undir með öðrum að þar koma fram ýmis ný viðhorf. Þetta er ekki hefðbundin ræða utanrrh. á Alþingi þar sem nánast má segja að oftast hafi fá tíðindi verið boðuð. Þarna eru vissulega boðuð ný tíðindi sem eru áhugaverð.

Hæstv. ráðherra gerir EES-samninginn m.a. að umtalsefni, sem varð fimm ára í síðasta mánuði, og ráðherra segir réttilega að sá samningur hafi skilað nýjum straumum inn í íslenskt atvinnulíf. En mér finnst satt að segja EES-samningurinn merkilegri fyrir aðra hluti en þessa, fyrir aðra hluti en bara þýðingu hans fyrir íslenskt atvinnulíf. Ég held að samningurinn sé miklu þýðingarmeiri fyrir ýmis mál félagslegs eðlis á Íslandi, svo sem vinnuréttindi, réttindi launafólks, samkeppnismál, aðgerðir og eftirlit gegn hringamyndun og einokun og bókstaflega öll íslenska neytendalöggjöfin eins og hún leggur sig er til komin fyrir tilverknað EES-samningsins. Ég held því að EES-samningurinn hafi haft miklu meiri og jákvæðari félagsleg áhrif á Íslandi en efnahagsleg og atvinnuleg. Á þeim fimm árum sem liðin eru frá því að samningurinn var gerður hafa ýmsir, sem áður voru ýmist andvígir þessu samkomulagi eða höfðu fyrirvara um gildi þess, gert sér ljóst að EES-samningurinn hefur fært íslensku launafólki margvísleg réttindi sem búið var að berjast fyrir árum og jafnvel áratugum saman en komust loksins í íslensk lög fyrir tilverknað hans.

Ég hef orðið þess áþreifanlega var að t.d. innan verkalýðshreyfingarinnar hefur orðið alger viðhorfsbreyting til samningsins. Til sannindamerkis um það vil ég vekja athygli hv. þingmanna á því að nú fyrr á þessum vetri kom út sérstakur kynningarbæklingur á vegum stéttarfélagsins Iðju, þar sem verið var að kynna fyrir félagsfólki í því stéttarfélagi öll þau félagslegu réttindi sem EES-samningurinn hefði skapað því. Aðfararorðin í bæklingnum ritaði formaður félagsins, Guðmundur Þ Jónsson, sem var einn af þeim sem voru mjög andvígir gerð samningsins á sínum tíma. Í þeim aðfararorðum kemur fram að sá ágæti maður, Guðmundur Þ Jónsson, er aldeilis ekki lengur þeirrar skoðunar að þessi samningur hafi ekki verið góður heldur þvert á móti. Ég ítreka því að reynsla íslenskra verkalýðsforingja og verkalýðshreyfingar af þessum samningum er öll önnur en sú sem margir héldu fram þegar samningurinn var gerður. Það er ekki bara að öll neytendalöggjöfin, öll samkeppnislöggjöfin sem við Íslendingar búum við í dag, öll löggjöf um réttindi neytenda, sem búið var að berjast fyrir á Alþingi árum og jafnvel áratugum saman, séu orðin í lög leidd fyrir tilverknað þessa samnings heldur eru ýmis réttindamál launafólks, sem Alþýðusambandið og önnur verkalýðssamtök hafa barist fyrir áratugum saman, að verða að veruleika fyrir tilverknað þessa samnings svo sem að sporna gegn óeðlilegri yfirvinnu á Íslandi, barnaþrælkun á Íslandi og því að sjálfsögðu að fólk geti lifað af dagvinnulaunum sínum.

Í tilefni af því að samningurinn er nú fimm ára gamall, vil ég beina því til hæstv. utanrrh. hvort hann vilji ekki beita sér fyrir í samvinnu við hagsmunaaðila að menn létu í ljós álit sitt, tekið yrði saman álit aðila í einni góðri skýrslu um áhrif EES-samningsins, ekki bara á íslenskt atvinnulíf heldur líka á félagsleg réttindi, samkeppnislöggjöf, atvinnuréttindi o.s.frv. Það væri mjög tilvalið að nota einmitt fimm ára afmælið, ekki bara til þess að utanrrn. tæki á sínum eigin vegum eða á vegum annarra ráðuneyta saman skýrslu um áhrif EES-samningsins, heldur fengi til liðs við það verkefni aðila í atvinnulífinu og síðast en ekki síst aðila sem standa vörð um hagsmunamál almennings, eins og verkalýðssamtök.

[15:30]

Hins vegar er það rétt sem hæstv. utanrrh. tekur fram, að gera þurfi Alþingi betur kleift að fylgjast með framkvæmd tilskipana Evrópusambandsins, þeirra reglna sem það setur og við Íslendingar eigum að taka upp í lög. Á því hefur verið misbrestur. Komið hefur fram að oft hafi miðað hægt í að fullgilda á Alþingi ýmsar mikilsverðar tilskipanir frá EES. Því er spurning hvort ekki sé rétt að breyta þeim vinnubrögðum í sambandi við endurskoðun þingskapa, að eins og í öðrum þjóðþingum sem eiga aðild að þessum samningi verði kjörin á Alþingi sérstök þingmannanefnd með umboð frá Alþingi. Hún mundi fylgjast með þeim tilskipunum og samþykktum sem gerðar eru á vegum Evrópusambandsins og eiga að öðlast gildi á Íslandi og enn fremur fylgjast með, og fá ráðherra á sinn fund í því sambandi, hvernig málum miðar fram og hvað er í undirbúningi sem kann að varða lagasetningu hér heima í framtíðinni. Ég held að það væri alveg nauðsynlegt að bregða á þetta ráð. Önnur þjóðþing í kringum okkur, bæði innan ESB, hjá Norðmönnum og Svisslendingum, hafa gripið til þessa ráðs til að upplýsa þjóðþingin og tryggja að þau fylgist með. Ég teldi rétt að sami háttur yrði hafður á hér.

Segja má að allt önnur viðhorf og jákvæðari komi frá utanrrh. til Evrópusambandsins en gætt hefur í ríkisstjórninni fram til þessa. Því má segja að fleiri séu að losa um tjaldhæla sína en bara hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Það er ekki óeðlilegt að hæstv. utanrrh. og Framsfl. losi nú um tjaldhæla sína þar sem aftur og aftur hefur komið í ljós í skoðanakönnunum að meiri hluti Íslendinga, jafnvel mikill meiri hluti, vilji að skoðað verði alvarlega hvort ekki eigi að senda inn aðildarumsókn. Forsendan fyrir því er að sjálfsögðu sú að málið sé tekið á dagskrá eins og hæstv. utanrrh. hefur gert og ýmsir málsvarar Samfylkingarinnar hafa lýst sig sammála honum í því. Það verður nefnilega að upplýsa um þessi mál, upplýsa um kost og löst á aðildarumsókn. Ef að því kæmi að þjóðin þyrfti að taka ákvörðun um það, sem hún á að gera í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá hefði almenningur farið í gegnum þá umræðu og vissi hvað um er að ræða og gæti því byggt afstöðu sína á rökum.

Það er ekki víst, herra forseti, að mjög langt sé í að Íslendingar þurfi að gera upp hug sinn. Nú eru aðeins þrjú ríki í EFTA, fyrir utan Liechtenstein. Eitt þeirra, Sviss, hefur þegar fyrirliggjandi aðildarumsókn hjá framkvæmdastjórn ESB. Ef sú aðildarumsókn yrði tekin fyrir og hún samþykkt þá held ég að allir séu sammála um að EFTA væri búið að vera. EFTA verður ekki til með okkur og Norðmönnum einum. Þá fer málið að vandast fyrir þessar tvær þjóðir, að halda sínu í sambandi við EES-samninginn, þ.e. fylgja honum eftir eins og þarf og jafnframt að fá aðildarríki ESB til þess að virða hann og þekkja hann. Það er víst nógu erfitt fyrir, að fá þau til að viðhalda áhuga sínum og þekkingu á samningnum. Einnig er umræðan í Noregi nú mjög að snúast yfir í að Norðmenn geti frekar hugsað sér aðild að ESB en áður. Okkur má ljóst vera að ef annað hvort þessara ríkja tekur á næstu árum ákvörðun um aðild að ESB, þá er málið orðið meira en aðkallandi hjá okkur. Því tel ég nauðsynlegt að menn fari í að kanna kost og löst, fá hagsmunaaðila til þess að upplýsa almenning um reynslu sína af EES-samningnum, þannig að menn geti frekar búið þjóðina undir þá umræðu sem fram undan er.

Að þjóðin selji fullveldi sitt með því að gerast aðili að Schengen eða aðili að ESB vil ég nú draga í efa. Ég veit ekki til annars en að þær aðildarþjóðir sem eru í þessum fjölþjóðasamtökum líti svo á að þær séu fullvalda. Ég spyr þá vin minn, hv. þm. Hjörleif Guttormsson: Hversu oft er hægt að afsala fullveldi sínu? Ég man ekki betur en hv. þm. hafi sagt, þegar atkvæði gengu á Alþingi um aðild Íslands að EES-samningnum, að þar hafi þjóðin afsalað sér fullveldi sínu. Sú atkvæðagreiðsla snerist um það að þjóðin væri að afsala fullveldi sínu. Síðan kemur hann í ræðustól og segir: Ef við stígum eitt skref til viðbótar þá erum við að afsala okkur fullveldi. En var ekki búið að því? Eða hefur hv. þm. snúist hugur? Er hann nú þeirrar skoðunar að samningurinn um EES hafi ekki falið í sér afsal á fullveldi Íslands? Ef svo er ekki, hvað er þá hægt að afsala fullveldi oft? Það er eðlilegt að hv. þm. svari því.

Einnig er ástæða til að fagna þeim viðbrögðum sem komið hafa fram hjá hæstv. ráðherra í greinargerð sem fylgdi með skýrslu um öryggismál. Það er allt annar tónn í ræðu og greinargerð ráðherra en þessi gamli kaldastríðstónn sem verið hefur hjá þingmönnum Sjálfstfl. í gegnum áratugina. Það er eins og þeir haldi að ekkert hafi gerst í heiminum öll þessi ár.

Ég minni t.d. á, ég held að það hafi verið í upphafi níunda áratugarins, að þáv. formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, lagði fram tillögu um að Íslendingar huguðu að því hvort þeir ættu ekki að taka að sér, í ríkari mæli en þeir gerðu ýmis verk tengd varnarliðinu, sem ekki krefðust herþjálfunar. Það ætlaði allt að verða vitlaust í landinu, hjá íhaldinu vel að merkja. Þessi tillaga var kölluð fataskiptatillaga. Talað var um að með henni væru menn að nánast að selja landið, alla vega að afsala okkur forræði í varnarmálum.

Hvað hefur gerst síðan? Hafa ekki Íslendingar tekið við nærri allri ratsjárþjónustu er varðar eftirlit með flugumferð í kringum landið, sem herþjálfaðir menn voru áður með? Ja, ég veit ekki betur. Leggur ekki utanrrh. til í skýrslu sinni að menn skoði ýmsa fleiri þætti, t.d. aðgerðir til varnar hryðjuverkum, aðgerðir er varða öryggi á sjó, sem hefur verið sinnt af bandaríska sjóhernum? Vill hann ekki skoða aðgerðir á sviði almannavarna sem flugbjörgunarsveitin á Keflavíkurflugvelli, sem varnarliðið starfrækir, hefur séð um o.s.frv.?

Þetta eru hin nýju viðhorf, virðulegi forseti, sem hæstv. utanrrh. leggur fram í skýrslu sinni. Þau eru gjörólík hinum gömlu kaldastríðsviðhorfum sem þingmenn Sjálfstfl. hamra stöðugt á. Það er jákvætt og lofsvert.

En líti menn hlutlægt á málin, hvaða þingmaður skyldi hafa kastað fram tillögu um róttækustu breytingu í varnarmálastefnu Íslendinga upp á síðkastið? Skyldi það hafa verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon? Nei. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson? Nei, ekki heldur. Skyldi það vera einhver úr Samfylkingunni? Nei, ekki aldeilis. Hver þá? Nú, enginn annar en hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason. Hans tillaga fólst í að Íslendingar stofnuðu her sem tæki að sér að verja landið. Það er tillaga sjálfstæðismannsins Björns Bjarnasonar. Geta menn nefnt róttækari tillögu um breytingu á varnarmálastefnu Íslendinga en þessa?

Hvað sögðu kaldastríðsmenn íhaldsins þegar sú tillaga var lögð fram? Þeir þögðu. Þeir sögðu ekki eitt einasta orð. Þeir töluðu ekki um að Björn Bjarnason veittist að íslenskum varnarhagsmunum. Það væri gaman að heyra, í umræðum hér um þessi mál, hvað þeir segja um þessa róttækustu tillögu um breytingu á varnarmálastefnu Íslendinga sem fram hefur komið frá nokkrum þingmanni í seinni tíð. Eru þeir á því að Íslendingar eigi að stofna her og taka að sér varnir landsins, eins og hæstv. menntmrh. hefur lagt til? Eru þeir enn fastir í gamla, hlægilega kaldastríðshugsunarhættinum? Hafa þeir ekkert elst frá árinu 1960? Eða eru þeir kannski sammála innst inni, þó þeir þori ekki að viðurkenna það, þeim málflutningi og þeim áherslum sem fram koma í skýrslu hæstv. utanrrh.?