Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:40:59 (4053)

1999-02-25 15:40:59# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Í sambandi við samantekt á því hvernig EES-samningurinn hefur reynst þá vil ég ekki útiloka að farið verði í slíka athugun. Utanrrn. hefur hins vegar í starfi sínu lagt megináherslu á að kynna samninginn og þá möguleika sem Íslendingar eiga í að notfæra sér hann. Við höfum nýlega gefið út upplýsingabækling um möguleika fólks, ekki síst ungmenna, til starfsréttinda á Evrópska efnahagssvæðinu og til þess að mennta sig. Við ætlum að halda áfram á því sviði. Við höfum komið upp fullkominni vefsíðu um þessi mál og teljum reyndar að við séum lengra komnir í þessu sambandi en ýmsar aðrar þjóðir.

Í sambandi við Alþingi og Evrópumálin þá tek ég undir með hv. þm. Ég benti á það í þingflokki mínum, í umræðum um nefndaskipan á Alþingi, að þetta mál þyrfti að athuga sérstaklega, í sambandi við skipan þingsins í nefndir. Ég tel að Evrópumálin eigi þar að vera ofarlega á baugi.