Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:45:48 (4057)

1999-02-25 15:45:48# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þau orðaskipti sem hér hafa orðið rétt í þessu minna á stöðuna innan svonefndrar Samfylkingar. Hver talar fyrir hvern? Ég skil það svo að hér hafi talað yfirtalsmaður Samfylkingarinnar og var nú að gera heldur lítið úr settum talsmanni. Hann fór, virðulegur forseti, með þá stefnu sem Alþfl. hefur verið trúr síðan upp úr 1960, að vilja ganga inn í Evrópusambandið. Það var fyrrverandi forustumaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, sem mælti fleyg orð sem voru eitthvað á þá leið að öruggasta leiðin fyrir litla þjóð til að vernda sjálfstæði sitt væri að afsala sér því. Þetta var kölluð þjóðminjasafnsræða. Hún hefur verið flutt síðan. Sjálfstæði þjóðar er ekki deilanlegt sem slíkt. Hins vegar er í því ákveðið þanþol og hvenær þú ferð fram af bjargbrúninni fer eftir því hvaða skrið er á þér. EES-samningurinn var hluti á þeirri vegferð sem hv. þm. er að boða. Sú gata sem hann vill ganga er hluti af þeirri vegferð. Og nú er það skref notað sem rök fyrir að stíga beri það næsta.