Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:48:28 (4059)

1999-02-25 15:48:28# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Samhengið Ísland og Evrópusambandið er flókið. Evrópusambandið er á hraðri leið í áttina að ríkisheild. Þeir sem tengjast þeirri ríkisheild böndum eiga á hættu að verða teknir með inn í þessa ríkisheild og það er það sem hefur verið að gerast og það er það sem er að gerast í þessum málum. Við erum að samsama okkur Evrópurétti. Við erum að innleiða hér Evrópurétt og verðum að fylgja honum nauðug viljug. Settur talsmaður Samfylkingarinnar orðaði það svo hér áðan að 80% af löggjöf kæmu frá Brussel. Það er kannski ekki alveg svo hátt hlutfall en þó er það veruleikinn að meiri hluti af þeirri löggjöf sem hér er innleidd kemur frá Brussel og Alþingi verður nauðugt viljugt að yfirtaka hana. Á þetta bentum við andstæðingar aðildar Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði og þær viðvaranir hafa sannast rækilega á þeim tíma sem síðan er liðinn.