Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:51:34 (4061)

1999-02-25 15:51:34# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:51]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Skoðanir hv. þm. Sighvats Björgvinssonar á öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar eru mér vel kunnar (HG: Og kærar.) og einnig skoðanir flokks hans, Alþfl. Hins vegar hafa skoðanir hinnar nýju stjórnmálahreyfingar, Samfylkingarinnar, verið nokkuð á reiki. Ég var að koma af stjórnmálafundi í einum af framhaldsskólum borgarinnar þar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna voru mættir. Frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík var þar spurður um stefnu Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum og hann svaraði efnislega, eftir að hafa útskýrt að þarna væru tveir gamlir flokkar að koma saman sem hefðu haft ólíkar skoðanir á þessum málum, að Samfylkingin ætlaði að geyma sér að hafa skoðun á aðildinni að NATO þar til endurskoðun á öryggisstefnu NATO væri lokið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var einnig staddur á fundinum og getur staðfest að ég fer efnislega rétt með.