Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 15:59:08 (4067)

1999-02-25 15:59:08# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[15:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fengum við það staðfest að þeir sem koma til með að kjósa samfylkingu krata, þeir sem koma til með að kjósa kratasamfylkinguna vita ekkert hver stefnan er í Evrópusambandsmálunum, annað en að menn ætla að ræða kost og löst. Í stjórnmálum á að bjóða upp á skýra valkosti. Lýðræðið snýst um að boðið sé upp á valkosti í stjórnmálum og í kosningum. En hv. þm. Sighvatur Björgvinsson segir að ekki verði boðið upp á neina slíka valkosti á vegum kratasamfylkingarinnar þannig að kjósendur hennar vita ekkert hvert stefnt verður. Af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er boðið upp á skýran valkost. Við erum andvíg því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það sem meira er, við færum rök fyrir okkar máli.