Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:02:26 (4069)

1999-02-25 16:02:26# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég átti orðaskipti við hæstv. utanrrh. fyrr í dag um þá aðferð sem hann fer til þess að ná markmiði sínu um Kyoto-samninginn. Ég lýsti því skilmerkilega að ég teldi að aðferðin sem hæstv. ráðherra hefur kosið væri röng. Hæstv. ráðherra var mér eðlilega ósammála eins og kemur glögglega fram í ræðu hans.

En mig langaði af þessu tilefni að rifja upp og bera saman stöðu Íslands og Bandaríkjanna í þessu efni. Við göngum til þessa leiks og höfum það í farteskinu að við viljum reyna að ná fram hinu svokallaða séríslenska ákvæði. Bandaríkjamenn fara líka inn í þetta samningaferli og það er tvennt sem þeir vilja ná fram, annars vegar eru þeir talsmenn kvótaframsals og hins vegar hafa þeir lýst því yfir að þeir vilji að þróunarríkin komi líka inn í dæmið.

Hvað gera Íslendingar í þessu? Hvað gerir hæstv. utanrrh.? Hann ákveður að undirrita ekki bókunina og lýsa þar með yfir að stefna ríkisstjórnarinnar sé þess eðlis að ólíklegt sé að Íslendingar muni í framtíðinni verða hluti af hinni endanlegu niðurstöðu nema að gefinni þeirri forsendu að hið íslenska ákvæði verði tekið inn í samninginn og útfært eins og Íslendingum fellur í geð.

Bandaríkjamenn hins vegar, sem berjast fyrir tvenns konar breytingum á þeirri stöðu sem núna er, fara allt aðra leið. Þeir undirrita og gefa þar með pólitíska viljayfirlýsingu sem felur það í sér að þeir vilji leggja sitt af mörkum eins og hægt er til að reyna að ná markmiðum þessa ferlis. Þeir hafa hins vegar lýst því yfir, a.m.k. hvað varðar annað þessara tveggja markmiða, að ef það næst ekki, þ.e. markmiðið um þróunarríkin, þá muni þeir ekki staðfesta samninginn. Á þessu tvennu er reginmunur. Ég tel að það hefði verið farsælt fyrir hæstv. utanrrh. að hafa forgöngu um að Íslendingar færu sömu leið og Bandaríkjamenn, þ.e. að taka áfram þátt í ferlinu, ávinna sér skilning og virðingu og e.t.v. þakklæti þeirra sem einnig eru í ferlinu og reyna að beisla það til þess að ná fram markmiði sínu. Þetta var það sem ég hafði ekki tíma til að segja í morgun en vildi koma að, herra forseti, til enn frekari útskýringar á því að ég tel að samningatækni hæstv. utanrrh. í þessum efnum sé áfátt og ég rökstyð það með því að Bandaríkjamenn fara aðra leið og eru líka að berjast fyrir sérstökum ákvæðum í þessu.

Herra forseti. Mig langar líka í tengslum við þetta að benda á að í ræðu hæstv. utanrrh. lýsir hann því yfir, ég held fyrstur utanríkisráðherra, að hann hyggist beita sér fyrir því að Íslendingar verði aðilar að CITES-samningnum, sem fjallar um viðskipti með plöntur og villt dýr sem eru í hættu. Á sínum tíma þegar ég var umhvrh. lagði ég það til í ríkisstjórninni að Íslendingar gerðust aðilar að þessum samningi. Því var hafnað. Hæstv. ráðherra vill að Íslendingar fari inn í þetta ferli og ég er sammála honum um það. Hvað vakir fyrir honum? Annars vegar væntanlega að veita ákveðið varnarviðnám vegna þess að innan þess samnings eru menn að fara að taka upp vinnu sem varðar sjávarútveg og fiskveiðar, og hann vill væntanlega fyrir hönd Íslendinga geta haft áhrif á það. Hins vegar eru einhverjir hvalir á listanum yfir þær tegundir sem ekki má versla með samkvæmt þessum samningi. Ég þekki það ekki til hlítar. En það er á grundvelli þessa samnings sem viðskipti, m.a. viðskipti með hvalaafurðir, hafa ekki gengið eftir. Ég ímynda mér að hæstv. ráðherra sé m.a. að leiða Íslendinga þarna inn til þess að geta breytt því. Í þessu tilviki beitir hann annarri og farsælli samningatækni en hann er einmitt að leggja til sjálfur varðandi Kyoto.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar um Kyoto. Ég hef komið sjónarmiðum mínum á framfæri um það efni. Mig langaði hins vegar, eins og ýmsir hafa gert í þessari umræðu, til að gera að umfjöllunarefni þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram sem fskj. og fjallar um öryggis- og varnarmál Íslands. Ég tel að þessi skýrsla sé eins og ferskur gustur inn í hina stöðnuðu umræðu, hina klisjukenndu umræðu sem hefur verið um varnarmál. Þeir sem hafa fyrst og fremst fest þessa umræðu í hjólförum fortíðar og kalda stríðsins eru þingmenn Sjálfstfl. sem sitja í þessum sal. Jafnan þegar menn hafa vogað sér að tala um breyttar áherslur í vörnum landsins og öryggismálum landsins, t.d. með það að leiðarljósi að auka hlut Íslendinga, þá hafa þessir handhafar kalda stríðsins, talsmenn fortíðarinnar, ævinlega rokið upp með tali sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en svo að þeir sem hafa fjallað um þetta séu í rauninni að vega að rótum lýðræðisskipulagsins eins og við þekkjum það hér, séu að vega að rótum vestrænnar samvinnu.

Þess vegna held ég því fram og reyndar fleiri talsmenn Samfylkingarinnar að það sé allverulegur munur á viðhorfunum sem birtist í þessum efnum hjá hæstv. utanrrh., og þar með Framsfl., og hins vegar Sjálfstfl. Sjálfstfl. er á hverju sviði utanríkismála á fætur öðru að staðna. Ekki bara á þessu sviði, herra forseti, heldur líka í Evrópumálum. Það er mála sannast varðandi Evrópumálin að það hefur verið bannorð að ræða Evrópusambandið. Og það hefur gengið út dagskipan hjá forsrh., formanni Sjálftsfl., að Evrópumálin séu ekki á dagskrá. Hann hefur til skamms tíma haft ríkisstjórnina undir í þessu máli. En svo virðist sem það sé hlutskipti Framsfl. að veita nýjum hugsanastraumum, nýjum skoðanastraumum inn í umræðuna af hálfu ríkisstjórnarinnar. Vonandi verður það til þess að tröll forneskjunnar, þingmenn Sjálfstfl., sjái að þeirra tími fer kannski að koma líka, að kannski kemur sú stund að það rennur upp fyrir þeim að það er í lagi að ræða Evrópumálin og að það er í lagi að ræða öryggis- og varnarmál eins og gert er í þessari skýrslu, án þess að menn þurfi að rjúka upp og kalla þá andlýðræðislega og óþjóðlega, en þannig nöfn hafa þeim verið valin sem hafa á undanförnum árum rætt mál af þessu tagi.

Í þessari skýrslu, herra forseti, sem þrír starfsmenn utanríkisþjónustunnar hafa samið, er í fyrsta lagi dreginn saman mikill fróðleikur og ég segi það fyrir mig, sem á sæti í utanrmn., að margt af því sem þar er kemur mér á óvart. Margt af því veitir mér nýja sýn á málin. Þar þora menn einfaldlega að segja það sem þeir sem hafa verið til vinstri í stjórnmálunum hafa aldrei mátt segja án þess að á þá sé ráðist, þ.e. að breytt viðhorf í öryggismálunum gefi tilefni til þess að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Þar er sagt berum orðum, með leyfi forseta:

,,Síðast en ekki síst gefur dvínandi hernaðarógn við landið Íslendingum færi á að takast á hendur stærra hlutverk í vörnum landsins en áður.``

Guð láti gott á vita. Þetta eru hlutir sem menn hafa verið að ræða á undanförnum árum. Þetta hafa vinstri menn stundum komið fram með, en alltaf verið kveðnir í kútinn vegna þess að handhafar kalda stríðsins hafa alltaf komið fram og barið þetta niður vegna þess að með þessu væri verið að vega að NATO og her í landi. Það er fráleitt mál.

Ég tek undir það með talsmanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, að þessi skýrsla gefur tilefni til þess að gerð verði frekari úttekt á þessum málum. Ég bendi sérstaklega á það að í einni af þremur megintillögum þeirra ráðuneytismanna er lagt til að leiðir verði kannaðar til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk, einir eða í samstarfi við önnur ríki, í vörnum landsins. Þar eru talin upp löggæsla, varnir gegn hryðjuverkum, almannavarnir, björgunarstörf, æfingar og eftirlit á hafinu í kringum landið.

Það vill svo til, sem ég vissi ekki að öllu leyti áður, að nú þegar er fyrirhugað að efla samstarf Atlantshafsbandalagsins, þ.e. hersins og Landhelgisgæslunnar t.d. með því að Landhelgisgæslan taki að sér hlutverk sprengjueyðingarsveitar flotans hér við land. Það er auðvitað fróðlegt að nú þegar hafa Íslendingar tekið að sér mikilvægan part af varnarviðbúnaðinum, þ.e. loftvarnakerfi sem er eitt hið fullkomnasta í heimi. Daglegur rekstur þess og viðhald er í höndum Íslendinga.

Herra forseti. Þegar síðan kemur tillaga úr utanrrn. um að kanna leiðir til þess að Íslendingar geti tekið í vaxandi mæli að sér varnarhlutverk, einir eða í samstarfi við einhver önnur ríki, þá ber auðvitað að fagna því. Það gefur tilefni til þess að þetta verði skoðað betur. Ég vek líka athygli á því að í skýrslunni er beinlínis lagt til að skipulag varnarmála, eins og við Íslendingar komum að því, verði tekið til ítarlegrar endurskoðunar. Drottinn minn dýri, hvað hefði nú verið gert ef einhver gamall draugur úr Alþb. hefði komið og leyft sér að tala um að það þyrfti að taka skipulag varnarmála til endurksoðunar, hvað þá ítarlegrar endurskoðunar? Hvað hefðu hv. þingmenn Sjálfstfl. sagt þá? Þeir hefðu að sjálfsögðu hrópað: Úlfur, úlfur. Nú á að leggja NATO niður. Nú á að reka herinn úr landi.

En staðreyndin er sú að hér eru færð rök að því að það þurfi að taka hið stjórnsýslulega fyrirkomulag öryggis- og varnarmála til endurskoðunar. Í því felst m.a. að kannað verði hvernig hægt verði að gera samstarf dómsmrn. og utanrrn. um öryggis- og varnarmál skilvirkara. Hér er verið að leggja þetta til. Ég tek að sjálfsögðu undir það.

Sömuleiðis er það rauður þráður í gegnum þessa skýrslu að ógnin sem steðjar að Íslandi er allt önnur en áður. Á átta árum, ég held að það komi fram einhvers staðar í þessari skýrslu, hefur ekki einni einustu rússneskri flugvél verið bægt frá landinu. Áður skiptu þær yfirleitt tugum á hverju ári, stundum tugum í hverjum einasta mánuði. Ógnin er allt önnur. Og hvað er það sem starfsmenn utanrrn. draga upp sem framtíðarógnina sem við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við eigum að bregðast við? Það eru aðgerðir hermdarverkamanna. Það eru aðgerðir skipulagðra glæpahringa.

Ég spyr: Eru til áætlanir um það hvernig eigi að bregðast við ef skipulagður hópur hermdarverkamanna kæmi t.d. til Íslands og tæki yfir Leifsstöð? Eru til skiplagðar áætlanir um samræmdar aðgerðir varnarliðsins, lögreglunnar í Leifsstöð og lögreglusveitanna á Reykjanesi? Er þær til? Hefur æfing á slíkum atburði átt sér stað? Hvað með flugrán? Þetta eru allt saman hlutir sem við þurfum að skoða, ekki síst þegar við horfum til þess að það kunna að vera átta ár þangað til Íslendingar verða e.t.v. komnir með sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það beinir sjónum umheimsins að Íslandi með allt öðrum hætti.

Hv. þm. Kristján Pálsson brosir. Hann er einn af þeim sem eru einmitt í kaldastríðssveit Sjálfstfl., einn af þeim sem leyfa sér að brosa þegar menn taka á þessum málum öðruvísi en leyfilegt hefur verið að mati Sjálfstfl. áður.

Herra forseti. Ég held að þessi skýrsla sé góður grunnur að því að þetta fyrirkomulag öryggis- og varnarmála verði skoðað. Hæstv. utanrrh. hefur lagt það hér inn í umræðuna í dag að æskilegt væri að heyra hvernig þingheimi finnst að taka eigi á málinu. Mér finnst að það eigi að víkka út þennan starfshóp. Í honum voru aðeins þrír, sendiherrar eða starfsmenn utanrrn. Það á að fjölga starfsmönnum utanrrn. og á móti eiga að koma fulltrúar þingheims, þ.e. þingmenn, þrír til fimm eftir atvikum úr utanrmn. Og saman eiga þeir að vinna þetta mál. Það er mín skoðun.

Herra forseti. Ég hefði viljað ræða ýmislegt fleira sem tengist þessu máli en mér finnst að menn eigi að leyfa sér þann munað að ræða þessi mál opið, án ásakana og án þess að festa sig í hjólförum fortíðarinnar, en það hefur einmitt einkennt ákveðinn flokk á þingi að það hefur ekki verið hægt að ræða varnar- og öryggismálin án þess að Sjálfstfl. komi upp með öll sín kaldastríðsflögg. Nú er tilefni til þess að gera þetta á annan hátt og sá ráðherra sem fer sem fagráðherra með þetta mál hefur gefið tilefni til þess í þinginu.