Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:16:36 (4070)

1999-02-25 16:16:36# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur miklar áhyggjur af samningatækni Íslendinga í sambandi við Kyoto-málið þó að hann hafi í sjálfu sér engan áhuga á því að Íslendingar nái því fram þar sem við erum að berjast fyrir. Ég hef skilið hann svo. En það er ánægjulegt að hann skuli hafa áhyggjur af því hvernig við höldum á málinu.

Auðvitað er það svo í öllum málum sem varða viðkvæma samninga á alþjóðavettvangi að það eru kostir og gallar við allar þær leiðir sem farnar eru. Það eru ákveðnir gallar við þá leið sem við höfum ákveðið að fara en kostirnir eru fleiri.

Hv. þm. spyr í því sambandi um afstöðu Bandaríkjanna. Það er allt annað mál. Fyrirvarar Bandaríkjanna eru tveir. Í fyrsta lagi vilja þeir fá nánari útfærslu á sveigjanleikaákvæði sem er í bókuninni. Einn þáttur í þessu sveigjanleikaákvæði er verslun með losunarkvóta. Þeir eru líka með þá kröfu að þróunarríkin komi inn í samninginn að mestu leyti eins og hann er. Hins vegar á allt annað við um íslenska ákvæðið. Það er því miður ekki hluti af þessari bókun þannig að ef við undirrituðum bókunina núna mætti skilja það svo að við værum að gefa það í skyn, sem ég veit að hv. þm. vill gera, að við værum tilbúnir að staðfesta bókunina síðar meir, jafnvel þótt við næðum engum árangri, með þeim afleiðingum sem það mætti hafa fyrir íslenskt samfélag. Hvort sem hv. þm. líkar betur eða verr þarf hann að gera sér grein fyrir því.