Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:41:29 (4077)

1999-02-25 16:41:29# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég bið þess að allar góðar vættir sameinist um að svipta burt þokunni sem ríkir í huga hv. þm. Í málflutningi hans rekur sig hvað á annars horn. Hann nýr mér því um nasir að ég sé skoðanalaus í annarri ræðunni en í hinni ræðunni að ég vilji að herinn fari úr landi. Er það ekki ansi sterk skoðun? Það er að vísu verið að gera mér upp þá skoðun, en það er ekki bæði hægt að koma hér og halda því fram að málflutningur minn miði að því að herinn fari úr landi og segja síðan að ég sé skoðanalaus.

Staðreyndin er þessi: Það er að renna upp fyrir hv. þm. og formanni utanrmn. Alþingis að hann er um of fastur í fortíðinni. Það má vel vera að okkur félögum hans, bæði í Samfylkingunni og Framsfl., takist að tosa hann inn í a.m.k. nútíðina og það væri gott, helst að bregða aðeins birtu í framtíðina líka.

Það er með ólíkindum að hv. þm. skuli bregðast við á þennan hátt. Hann gerir nákvæmlega það sem ég spáði fyrir um að hann mundi gera, að ef ég kem hérna og talaði um nauðsyn þess að stokka aðeins upp í viðhorfum okkar til öryggismála landsins þá yrði sagt að ég vildi að herinn færi úr landi, og hv. þm. gerði það.

Staðreyndin er bara sú, herra forseti, að alltaf er að koma betur og betur í ljós að Sjálfstfl. er að verða hrímþursinn í íslenskum stjórnmálum. Það er hann sem hefur gefið út dagskipan um að ekki megi ræða aðild að Evrópusambandinu, ekki heldur með því krítíska hugarfari sem hér hefur verið gert í dag, af hálfu sumra þingmanna Framsfl. Það er líka hann sem bregst við með nákvæmlega sama hætti og formaður utanrmn. hefur gert í dag í hvert skipti ef menn voga sér að tala um að kannski mætti hreyfa aðeins við skipulagi á öryggi og vörnum landsins.

Svo gerist það að hæstv. utanrrh. leggur fram skýrslu þar sem í mörgum greinum er sagt fyrir um hvernig nauðsynlegt sé að endurskoða ítarlega skipulag varnarmála, eins og það er orðað í tölulið 5 á bls. 34 í skýrslunni. Það eru ekki vinstri menn sem koma með það, það eru forustumenn ríkisstjórnarinnar. Og það er rökstutt með breyttum viðhorfum. Ég er einfaldlega að segja að ég er sammála þessum breyttu viðhorfum.

Ég er hins vegar ekki sammála því að herinn eigi að fara eða Ísland eigi að fara úr NATO, og ég hef aldrei sagt það í dag. En hv. þm. hefur gert mér upp þá skoðun.