Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:43:55 (4078)

1999-02-25 16:43:55# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:43]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hér er nú eitthvað málum blandið. Sá sem hér talar gat um það alveg sérstaklega að ef hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifaði að fullu undir það sem fram kemur í ræðu utanrrh. og í fylgiskjali með ræðu utanrrh. um Atlantshafsbandalagið og varnarliðið þá væri hann stuðningsmaður þess að hafa það hér. Og hann nikkaði. En ég benti honum jafnframt á það að stuðningsmaður hans í Samfylkingunni, Margrét Frímannsdóttir, er ekki eins hrifin af þessu. Og það hefur komið fram í umræðum á Alþingi að menn bara hafa enga skoðun á þessu máli. Þeir segja í einu orðinu að þeir vilji hafa herinn og vilji vera í NATO, en svo þegar eftir því er gengið þá kemur í ljós að menn hafa ekki skoðun á málinu. Og það á að geyma það til seinni tíma að taka afstöðu til málsins, eins og komið hefur mjög skýrt fram í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar.

Það er ekki meginathugasemd mín við þennan málflutning að hann sé ósanngjarn í garð hæstv. fyrrv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, heldur hitt að þessi málflutningur einkennist af skoðanaleysi og hringlandahætti. Í raun er ekkert hægt að segja hvaða skoðun í varnarmálum og öryggismálum þessi merka hreyfing, þ.e. Samfylkingin öll, hefur.