Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 16:45:59 (4079)

1999-02-25 16:45:59# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það er einkennilegt að í hvert einasta skipti sem þingmenn Sjálfstfl. leyfa sér að anda á stefnuleysi Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum, þá er galað: Kaldastríðsáróður, kaldastríðsáróður! Það er eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson viti ekki að kalda stríðinu lauk 1989. Það er eins og hv. þm. viti það ekki.

Hvers vegna er verið að ala á þessu, að rekinn sé kaldastríðsáróður? Hvers vegna er verið að því? (Gripið fram í: Af hverju eru þið að því?) Það eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem ala á því. Engir aðrir en þeir tala um kalda stríðið. Aðrir eru að tala um varnar- og öryggismál Íslands. Stefnuleysið og örvæntingin eru hins vegar slík að gripið er í bjarghring, fylgiskjal með ræðu hæstv. utanrrh., til að fleyta sér áfram í umræðunni og breiða yfir stefnuleysið. Þá er skýrsla utanrrh. eða fylgiskjalið með skýrslunni orðin ferskur vindblær. Undir öðrum kringumstæðum hefði það verið kallað skýrsla frá haukunum í varnarmáladeildinni og sendiráðinu hjá NATO.

Hvað er í þessari skýrslu? Jú, tillögur um breytingar í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. En hvernig tillögur eru það? Það eru allt saman viðbótartillögur. Það eru tillögur um nýja þætti. Hvert einasta atriði byggir á því og hvergi vikið að öðru en að Ísland verði áfram í NATO og varnarliðið verði áfram á Íslandi. Rætt er um breytingar og það að Íslendingar taki meiri þátt í vörnum landsins, taki að sér fleiri verkefni. Þetta heitir í dag, 1999, ferskur vindblær.

Það var líka talað um þetta 1974, að Íslendingar tækju að sér fleiri þætti í vörnum landsins. Það var líka talað um þetta 1983, niðurstaðan var sú að Ratsjárstofnunin var sett á stofn og Ísland fór að taka þátt í fundum hermálanefndarinnar. Reyndar var líka talað um þetta 1996 af hæstv. menntmrh. og mikið grín gert að því. Nú heitir það í dag, 1999, ferskur vindblær, það sem undir öðrum kringumstæðum hefðu verið skýrslur frá haukunum.

Öll þessi umræða, allar þessar yfirlýsingar og allt fátið er til að hylma yfir tvístígandann og stefnuleysið hjá Samfylkingunni í málefnum NATO og varnarliðsins. Það á að bíða eftir því að niðurstaða fáist í endurskoðun öryggismálastefnu NATO áður en tekin verður afstaða til aðildarinnar að NATO, eins og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík sagði á fundi hér í borginni í dag.

Talsvert hefur verið talað um Kyoto-bókunina og þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki undirritað hana og ekki hugsað sér að gera það fyrir 15. mars. Mér finnst ekkert skrýtið að ríkisstjórnin hugsi sér ekki að undirrita bókunina. Ég tel það reyndar mjög skiljanlegt og skynsamlegt. Staðan er einfaldlega sú að samningaviðræðum um þá þætti er skipta okkur Íslendinga mestu máli er alls ekki lokið.

Þrjú atriði skipta okkur sérstaklega máli. Í fyrsta lagi hvað verður um skógrækt og landgræðslu í losunarbókhaldinu. Það er óljóst eins og staðan er í dag. Í öðru lagi er það spurningin um viðskipti með losunarheimildir. Það er óljóst eins og staðan er í dag. Í þriðja lagi er það sérstaða Íslands eða íslenska ákvæðið, en samningaviðræðum um það er ólokið og hefur tvívegis verið frestað.

Hins vegar hefur verið tekið tillit til sérstöðu annarra ríkja, sérstaklega stærri ríkja og ríkjasambanda í þessum samningi, t.d. Evrópusambandsins um losun hjá þeim. Ég tel reyndar að afstaða þeirra í málefnum Íslands sé hrein meinbægni, af hvötum sem ég ekki fæ skilið. Ekki hefur síður verið tekið tillit til sérstöðu Bandaríkjanna en Bandaríkin losa tvisvar og hálfum sinnum meira koldíoxíð en við gerum. Þó að einhver smáatriði standi út af í samningsmarkmiðum þeirra þá er það ekkert í líkingu við þá sérstöðu sem hin mikla losun þeirra skapar þeim.

En hvað þýðir það að Bandaríkin hafa skrifað undir? Þýðir það eitthvað? Nei, það þýðir nákvæmlega ekki neitt. Allir vita að eins og staðan er í dag þá verður Kyoto-bókunin aldrei staðfest á bandaríska þinginu. Undirritun bandarísku ríkisstjórninni er að því leyti til algjörlega marklaus. Því tel ég skynsamlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að vera ekki með leikaraskap og undirrita ekki bókunina fyrr en ljóst er um niðurstöðu í þeim málum sem skipta okkur mestu máli.

Umræður um Evrópusambandið hafa einnig verið fyrirferðarmiklar og það er auðvitað ekkert skrýtið. Skemmtilegast er auðvitað að heyra síendurteknar fullyrðingar, sérstaklega fyrrverandi þingmanna þingflokks Alþfl., um að umræða um Evrópusambandið sé bönnuð innan Sjálfstfl. (SighB: Hvenær fór hún þá síðast fram?) Það eru sífellt umræður í gangi um Evrópusambandið innan Sjálfstfl. og ef hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vill fylgjast með þeim þá verður næsti fundur um það, þar sem ég verð framsögumaður, 15. mars nk. í Garðabæ. Honum er velkomið að mæta þar.

Hins vegar standa þessir sömu þingmenn í dag að þingflokki Samfylkingarinnar. Hvað hefur Samfylkingin gert í málefnum ESB? Er sami tvístígandinn í þeim varðandi ESB og varðandi aðildina að NATO og veru varnarliðsins? Nei, það er ekki. Samfylkingin hefur klára stefnu varðandi ESB. Það liggur ljóst fyrir að ekki eigi að ganga í ESB á næstu fjórum árum. Það er meira en hæstv. utanrrh. hefur látið sér um munn fara hvað þetta varðar. Hann hefur ekki útilokað neitt af þessu tagi.

Ekki hefur mikið farið fyrir umræðu um spurninguna um aðild Íslands að CITES eða ekki, en utanrrh. segir í skýrslu sinni að hann telji skynsamlegt að við gerumst aðilar að CITES. Ég hef efasemdir um að það sé rétt og skynsamlegt. Þær byggjast á því að vinnubrögð þessara samtaka eru mjög óeðlileg og mjög erfitt fyrir okkur að gerast aðilar að samtökum sem stunda slík vinnubrögð. Þar eru allt önnur skilyrði fyrir því hvort dýrategundir eru teknar á lista yfir þær sem þarf að vernda, taldar eru í hættu, fullnýttar eða í útrýmingarhættu en notuð eru þegar taka þarf dýrategundirnar af þessum listum. Með öðrum orðum er einfaldara að fá samþykkt að dýrategund sé í hættu og setja hana á bannlista en taka hana af þessum lista. Ég tel það mjög hættulegt og varhugavert fyrir okkur að taka þátt í starfsemi stofnunar sem viðhefur slík vinnubrögð.

Ef við ákveðum hins vegar að gera þetta þá verða fyrirvarar okkar að vera mjög ákveðnir og öruggt þeir haldi. Við vitum að sum þeirra samtaka sem berjast í þessum málaflokki eru afar ósvífin og það höfum við fengið að reyna á eigin skrokki hér á Íslandi.

Mig langar að lokum að nefna eitt atriði sem ekki hefur verið mikið til umræðu í dag en það er hvort við ættum að gerast aðilar að GEF, Global Environmental Facility. Ég held að við ættum að gaumgæfa hvort ekki sé rétt fyrir okkur að gerast aðilar að þeirri stofnun á einhvern hátt. Ég held að fátt væri jákvæðara í sambandi við samningaviðræður okkar um Kyoto-bókunina en að gerast aðilar að þeirri stofnun. Á það yrði litið sem jákvætt framlag okkar til umhverfismála í heiminum og sérstaklega til að styðja smáeyjaríkin og þriðja heiminn.

Þessar umræður hafa verið mjög líflegar og farið um víðan völl. Ég vona að þær hafi skýrt afstöðuna. Eitt hafa þær þó ekki skýrt og það er afstaða Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum. Vonandi fáum við fyrr en síðar að sjá hreina og klára afstöðu hinnar nýju stjórnmálahreyfingar í þeim málum.