Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:01:09 (4082)

1999-02-25 17:01:09# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. leggur sig í líma við að reyna að gera eins lítið úr hæstv. utanrrh. og hann mögulega getur. Hann lætur sér ekki bara nægja að segja: ,,Það er ekkert nýtt í þessu að finna, engir ferskir vindar.`` Hann slettir líka í góm og segir: ,,Þetta hefur svo sem verið gert áður sem utanrrh. er að gera. Það er ekkert merkilegt við það.``

Menn heyra undirtóninn hjá sjálfstæðismönnum, hvað gremjan er mikil, hvað fortíðarhyggjan er sterk, hvað þráin eftir því að halda þessum kaldastríðshugsunarhætti áfram í umræðum á Alþingi er mikil. Og ef þeir sjá ekki annan betri leik að þá gera þeir lítið úr öllu því sem hæstv. utanrrh. er að gera til að varðveita fortíðardrauginn þannig að við stjórnarandstæðingar --- sem erum nú ekki allir sammála honum eða hitt þó heldur --- erum að hrósa honum hér fyrir það að hann sé að marka ný spor. Við erum að tala um að þetta sé í fyrsta skipti sem við sjáum svona starfshætti á vegum utanrrh. og utanrrn. Svo koma kaldastríðsgemlingarnir í Sjálfstfl. og sletta í góm: ,,Þetta er ekkert merkilegt. Við höfum nú séð svona áður. Það er nú ekkert nýtt í þessu.``

Þetta er að verða dálítið sérkennileg umræða, herra forseti. Ég hef gaman af henni. Sérstaklega hef ég gaman af því þegar þessir kaldastríðsþingmenn Sjálfsfl. þurfa að beita samstarfsmenn sína í Framsfl. afli, jafnvel handafli, til þess að þvinga þá til þess að reyna að hjálpa sér til þess að halda umræðum áfram í þessum anda.

Þannig er það, því miður, að þessir menn lifa enn þá í fortíðinni og þeim hlýtur að líða óskaplega illa, herra forseti.