Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:05:14 (4084)

1999-02-25 17:05:14# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var fyrst í vafa hvort rétt væri að kalla hv. þm. Árna M. Mathiesen gemling eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði en ég verð að segja að af því plani sem hv. þm. féll niður á þá held ég að ekki sé hægt að nefna hann neinu öðru orði.

Ég held að hv. þm. seilist um hurð til lokunnar þegar hann heldur því fram að þingmenn Alþfl. séu að reyna að gera það sem þeir geta til þess að niðurlægja Jón Baldvin Hannibalsson. Svona bara til upplýsingar þá er rétt að hv. þm. viti það að við komum nú saman á 60 ára afmæli Jóns Baldvins Hannibalssonar og sendum honum öll skeyti í tilefni dagsins. Það var nú öll niðurlægingin sem hv. þm. er að reyna að gera hér upp.

Ég tók eftir því að hæstv. utanrrh., sem er smekkmaður og kann a.m.k. prótókolla, gekk úr þingsalnum á meðan hv. þm. Árni M. Mathiesen flutti þessa ræðu því að svo vond var hún. Og það sýnir að hæstv. utanrrh. er enn meiri smekkmaður en ég vissi áður. (Utanrrh.: En vissirðu hvers vegna?)

Hv. þm. hélt því fram að það væri markleysa hjá Bandaríkjamönnum að undirrita Kyoto-bókunina vegna þess að engin von væri til þess að hún fengist staðfest í þinginu. Nú er það svo að samkvæmt þjóðarétti felst engin skuldbinding í því að undirrita alþjóðasamning en hins vegar er almennt litið svo á að með því sé verið að leggja fram viljayfirlýsingu viðkomandi lands um að það muni eigi að síður freista þess að leggja samninginn til samþykktar fyrir þjóðþingið. Í þessu tilviki liggur alveg fyrir að það sem veldur efasemdum Bandaríkjamanna er hvort þróunarríkin muni koma inn í samninginn á seinni stigum. Það liggur líka fyrir að mikill þrýstingur er í því efni og það er mjög líklegt að þau geri það. Ég tel það a.m.k. Það getur verið að aðrir séu mér ósammála. En ég tel það. Ég held því að hv. þm. Árni M. Mathiesen hafi engar ástæður til þess að halda því fram hér að það sé marklaust af Bandaríkjaþingi að gera þetta.