Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 17:55:42 (4097)

1999-02-25 17:55:42# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[17:55]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Margt mjög athyglisvert hefur komið fram og þótt það hafi ekki ríkt almenn samstaða um öll mál, t.d. að því er varðar undirritun svokallaðrar Kyoto-bókunar vænti ég þess að hv. alþm. og Íslendingar allir geti staðið að því að sækja rétt Íslands í þessu sambandi og standa saman á alþjóðavettvangi.

Við erum lítil þjóð og getum náð miklum árangri ef við stöndum saman. Ef við gerum það ekki er ljóst að það hefur áhrif á þann árangur sem við náum í þessu máli og öðrum á alþjóðlegum vettvangi.

Ég get ekki fallist á þær skoðanir sem hafa komið fram í umræðunni að við viljum hafa opnar leiðir til að menga sem mest. Það er alls ekki þannig. Við viljum hins vegar hafa opnar leiðir til að nýta okkar auðlindir, nýta þær í þágu mannkyns og nýta þær í þágu baráttu gegn mengun í heiminum. Það er skylda okkar Íslendinga og jafnframt skylda okkar að fá aðrar þjóðir til að skilja þennan ásetning okkar og það er ásetningur ríkisstjórnar Íslands að gerast aðili að þeirri baráttu. Við viljum leggja okkar af mörkum í þessu sambandi en við höfum sérstöðu sem er mjög óvenjuleg meðal þjóða heims og ég tala ekki um meðal þjóða Evrópu og þeirra þjóða sem eru innan OECD. Við eigum aldrei að vera hrædd við að leggja áherslu á sérstöðu okkar og þá staðreynd að við erum lítil þjóð í stóru landi sem býr við mjög hreint umhverfi í alþjóðlegu samhengi.

Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um öryggis- og varnarmál og vænti þess að þær geti orðið til þess að ná betri samstöðu um þau mál og skýra línur. Ég tel einnig mikilvægt það sem hefur komið fram að því er varðar Evrópusamstarfið og þær áherslur sem þar eru uppi. Ég lít svo á eftir þessar umræður að mikil samstaða sé meðal íslenskra stjórnmálaflokka að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og ástunda góða samvinnu við þjóðir Evrópu.

Mér finnst mjög ánægjulegt hvernig umræðan um Schengen-samstarfið hefur þróast. Það sýnir að umræða getur verið mjög til góðs því mér finnst vera allt annar og betri skilningur á þýðingu þessa samstarfs nú á hinu hv. Alþingi en fyrst þegar byrjað var að ræða um þetta starf. Við erum Norðurlandaþjóð, við erum jafnframt Evrópuþjóð og það er nauðsynlegt fyrir okkur að búa við sambærileg skilyrði og aðrar þjóðir Norðurlandanna og Evrópu. Við þurfum að geta gefið okkar fólki sambærileg tækifæri og nágrannar okkar búa við og Schengen-samstarfið er liður í því starfi.

Ég vil að síðustu þakka góð orð í garð utanríkisþjónustunnar og starfsmanna hennar sem hefur almennt ríkt í umræðunni. Utanríkisþjónustan er fámenn en hún vinnur að mínu mati mjög gott starf. Mjög mikið álag er á utanríkisþjónustunni og öllu því starfsfólki sem þar er. Við eigum mikið af mjög hæfu starfsfólki innan utanríkisþjónustunnar og þetta fólk leggur sig undantekningarlaust mjög fram um að standa fyrir rétti Íslands á alþjóðavettvangi og starfa af fullum heilindum að við náum sem mestum árangri í alþjóðlegu starfi.

Ég vil að lokum árétta að ég vil gjarnan auka samstarf við utanrmn. um öryggis- og varnarmál og tek það svo að áhugi sé fyrir því hjá þingmönnum almennt. Við höfum leitast við að eiga góð samskipti við utanrmn. og jafnvel þó að einhver ágreiningur kunni að vera um það hversu mikilvægt það var að hafa betra samráð við utanrmn. um undirritun Kyoto-bókunarinnar á það ekki að koma á nokkurn hátt í veg fyrir að við höldum þessum góðu samskiptum. En ég minni á að samstarf þarf að ganga í báðar áttir. Utanrmn. getur einnig haft frumkvæði að því að óska eftir viðræðum við utanrrn., óska eftir upplýsingum frá utanrrn. sem ég veit að er gert, þannig að farsælt starf í þessu sambandi er ekki aðeins í höndum utanrrn. heldur einnig utanrmn.

Ég vil sérstaklega þakka gott samstarf við utanrmn. og þá ekki síst formann utanrmn. sem við höfum haft mjög náin samskipti við um ýmis mál og reynt að upplýsa hann fyrir hönd nefndarinnar um þau mál sem við teljum mikilvægt að hann sem formaður þurfi að fylgjast með en ég vil ítreka að við viljum ganga til móts við þær óskir sem hér hafa komið fram um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála.