Svör við fyrirspurnum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:35:20 (4101)

1999-02-26 10:35:20# 123. lþ. 73.91 fundur 291#B svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og ég gat um í umræðum um störf þingsins fyrir viku síðan þegar rætt var um svör mín við þeim fyrirspurnum sem forseti gerði að umtalsefni, þá fer því fjarri að það liggi í augum uppi hvort skylt sé eða jafnvel hvort óheimilt sé að veita umbeðnar upplýsingar af þessu tagi, í þessu tilfelli um kaup ríkisins á verkfræðiþjónustu. Þar koma við sögu ákvæði stjórnarskrár, upplýsingalaga og stjórnsýslulaga sem lúta að þeim grundvallaratriðum sem mál þetta snýst um og ekki er enn um að ræða neina einhlíta eða óumdeilda túlkun á þessum atriðum. Í því efni togast annars vegar á sjónarmið um rétt Alþingis til þess að krefjast upplýsinga um opinber málefni þar sem inn í fléttst m.a. túlkun á hugtakinu ,,opinbert málefni`` og hins vegar réttur einkaaðila, bæði einstaklinga og lögaðila til þess að upplýsingar um einkamálefni þeirra, þar með taldir fjárhags- og viðskiptahagsmunir, séu ekki birtar með þeim hætti að það valdi viðkomandi tjóni.

Það var á grundvelli hinna síðari sjónarmiða sem svör mín við spurningum hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Guðmundar Hallvarðssonar um kaup ríkisins á verkfræðiþjónustu byggðust.

Ég hef farið ítarlega ofan í þetta mál síðan og það hefur verið rætt við ýmsa sérfræðinga á þessu sviði, lögfróða menn. Ég hef á grundvelli frekari skoðunar breytt um afstöðu og tel rétt að Alþingi njóti þess vafa sem uppi er í málinu þar sem ekki er augljóst að í húfi séu svo mikilvægir viðskiptahagsmunir þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga að rétt sé að neita um umbeðnar upplýsingar. Í ljósi þessa mun ég á næstunni láta vinna ný svör við fyrirspurnum hv. þingmanna þar sem reynt verður að svara þeim spurningum sem fram eru bornar. En ég vil taka fram að ekki er unnt að svara þessum fyrirspurnum án mikillar og tímafrekrar gagnaöflunar.