Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 10:58:53 (4109)

1999-02-26 10:58:53# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[10:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Landsvirkjun fékk á sínum tíma þegar breyting var gerð 1996 á lögum um Landsvirkjun heimildir til þess að verða þátttakandi í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sneru að þátttöku í samstarfi við fyrirtæki erlendis. Að því leyti til er þetta frábrugðið hvað Landsvirkjun snertir.

Heimildin er ekki víðari en svo að við hvert einstakt verkefni sem fyrirtækið fer hugsanlega í þarf sérstaka heimild fjmrh. og iðnrh. Það er því um mjög takmarkaðar heimildir fyrirtækisins að ræða.

Af því að ég veit að hv. þm. þekkir vel til á Suðurnesjum og þekkir vel til Hitaveitu Suðurnesja þá er það svo að þrátt fyrir stóran eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja þarf hún ekki að leita neinna slíkra heimilda til þess að taka þátt í slíku verkefni og er það vegna þess að ríkið er þar í minni hluta. En það er einfaldlega verið að heimila Rarik, sem við getum sagt að sé samkeppnisaðili Hitaveitu Suðurnesja, að vera þátttakandi í sambærilegum verkefnum eins og Hitaveita Suðurnesja hefur heimild til án þess að leita nokkuð til eigenda sinna, þ.e. ríkisins í þessu tilfelli. Það er stjórnin sem getur tekið ákvörðun um að Hitaveita Suðurnesja skuli vera þátttakandi í hvaða verkefni sem er og verkefnum langt fyrir utan hinn hefðbundna og upphaflega tilgang sem hitaveitan fékk í upphafi, þ.e. að vinna, dreifa og selja orku. Hún getur verið þátttakandi í vetnisfélögum, framfarafélögum, hvaða atvinnuþróunarfélögum sem er með því að kaupa sig þar inn. Ekki er verið að leita svo víðtækra heimilda með þessu heldur er fyrst og fremst verið að veita heimild til Rariks til þess að geta verið þátttakandi í verkefnum og fyrirtækjum sem starfa á því sviði sem Rarik er núna aðallega á. Þarna eru því þrengri heimildir en Hitaveita Suðurnesja hefur yfir að ráða í dag. En mér finnst eðlilegt að þessi fyrirtæki búi við sambærileg eða jöfn samkeppnisskilyrði hvað þetta snertir.