Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:09:21 (4112)

1999-02-26 11:09:21# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:09]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekkert í orðum mínum um frv. er með þeim hætti að ástæða sé til þess fyrir þingmenn að telja að ég sé á móti einhverju einstöku af þeim verkefnum sem eru tilgreind nákvæmlega í greinargerð. Það er heldur ekki verið að fara þá leið að leggja til að Rafmagnsveiturnar geti tekið þátt í verkefnum hjá nákvæmlega þessum aðilum. Ég hef heldur ekki haft uppi nein orð um það hvort ég sé á móti því efnislega að Rafmagnsveitur ríkisins taki þátt í verkefnum af því tagi sem er verið að nefna, einu út af fyrir sig, tveimur eða öðrum sem uppi er á einhverjum tíma. Það sem ég er að benda á er að lagagreinin er þannig að Rafmagnsveiturnar virðast með orðanna hljóðan vera að fá mjög víðtæka heimild og miklu víðtækari en nákvæmlega að eiga samstarfsverkefni af því tagi sem hér er. Ég undirstrika að það er þetta sem ég er að benda á og ég hvet nefndina til að skoða þetta mál vel. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess og ég ætlast til að menn geri sér grein fyrir því. Ég hef bent nákvæmlega á það. Málið er glænýtt. Það er ekki á verkefnasviði mínu eins og þingmenn þekkja, við erum með verkaskiptingar í þinginu, ég er að skoða það núna. Ég kem með varnaðarorð og ég hvet nefndina til að skoða það vel. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess. En við gætum verið að fara þá leið sem við höfum oft gert að veita afmarkaðar heimildir. Það er það sem ráðherrann kýs ekki. Hann vill að Rarik hafi opnar heimildir og ég hef áhyggjur af því.