Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:11:16 (4113)

1999-02-26 11:11:16# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:11]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Reykn. fyrir andsvarið og það sem þingmaðurinn sagði. Ég lít svo á að hv. þm. sé reiðubúin til að skoða þetta mál og í andsvari hennar kom ekkert fram sem gæti fengið mig til þess að halda að þingmaðurinn yrði á móti þessu frv. en varnaðarorð hennar eru að sjálfsögðu eðlileg og nefndin mun væntanlega skoða málið vandlega.

Ég undirstrika að þær heimildir sem verið er að fjalla um og frv. felur í sér eru einungis til að skapa þessu mikilvæga fyrirtæki, Rafmagnsveitum ríkisins, betri stöðu í erfiðu verkefni við að lækka raforkuverðið. Raforkuverðið frá Rarik er allt of hátt. Svo ég endurtaki það er það vegna þess að dreifikerfið er óhagkvæmt og þær fáu virkjanir sem Rarik hefur á sínum snærum eru ekki nægjanlega hagkvæmar. Því þarf að leita leiða með samstarfi við sveitarfélög eða aðra aðila til að virkja og ná því fram að Rafmagnsveiturnar verði hagkvæmara fyrirtæki og geti selt orkuna við lægra verði. Það er tilgangurinn og ég fagna því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skyldi taka undir þetta eins og hún gerði í andsvari.