Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:23:18 (4116)

1999-02-26 11:23:18# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Stundum koma umræðurnar í þinginu á óvart. Ekki hefði mig órað fyrir því að umræða um þetta þingmál gæti orðið á þann veg sem hún hefur fallið hingað til af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hafa kosið að tjá sig um málið. Ég held að fáum blandist hugur um það sem hafa lesið frv. að því er ætlað að reyna að bæta stöðu þess fólks sem býr á landsbyggðinni, á þjónustusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Það hefur verið ítrekað hér í máli hæstv. ráðherra og annarra þingmanna sem hafa tekið til máls, eins og hv. þm. Sturlu Böðvarssonar. Markmið frv. er að bæta búsetuskilyrði fólksins sem býr á þjónustusvæði Rafmagnsveitna ríkisins sem er fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Það sem þingmenn Samfylkingarinnar leggja inn í umræðuna er að þeir leggjast gegn þessu markmiði. Þeir eru ósammála því að ríkisvaldið beiti sér fyrir aðgerðum sem geta stuðlað að því að lækka raforkuverð þar og styrkja fyrirtækið sem á að dreifa raforkunni til þessa hluta þjóðarinnar. Þetta er mjög einkennilegur málflutningur í mínum eyrum þó hann kunni að vera eðlilegum í eyrum þeirra sem skipa sér undir fána Samfylkingarinnar. Það er allt í lagi mín vegna en það er eðlilegt að menn dragi þá fram hinar pólitísku markalínur í málinu.

Við skulum aðeins rifja upp fáein atriði um skipulag orkumála hér á landi. Við skulum rifja það upp að Rafmagnsveitur ríkisins hafa það verkefni að dreifa raforkunni til dreifbýlari hluta landsins, til þess hluta þjóðarinnar sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Hvað skyldu þeir sem búa í þéttbýlinu leggja til þess verkefnis? Staðreyndin er sú að það er sáralítið. Það er nefnilega þannig að þjóðin sem býr á höfuðborgarsvæðinu tekur engan þátt í því að kosta dreifikerfið mikla sem þarf að reisa um allt land til að þjónusta þann hluta þjóðarinnar sem býr fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Eru það eðlilegar leikreglur, herra forseti, þegar ein þjóð býr í einu landi að ákveðinn hluti þjóðarinnar búi við það að njóta einn alls hagræðisins af því að búa þétt saman en hinn hluti þjóðarinnar taki á sig allan kostnaðinn við að dreifa orkunni um landið? Það finnst mér ekki sanngjarnar leikreglur, herra forseti. En þetta eru þær leikreglur sem við höfum búið við og ég hefði mjög gjarnan viljað sjá að yrði breytt á næstunni. Þess er ekki að vænta í ljósi viðbragða þingmanna Samfylkingarinnar að úr þeirri átt komi neinn liðsauki til þess að styrkja stöðu dreifbýlisins þannig að þeir sem njóta hagræðisins láti eitthvað af því hagræði til hinna sem njóta þess ekki. Það hét í gamla daga jafnaðarstefna. En það virðist vera búið að jarðsetja þá stefnu með jarðarför gömlu flokkanna sem standa að Samfylkingunni.

Ég vil nefna líka annað atriði, herra forseti. Það er ekki bara ríkið sem á þau fyrirtæki sem eru í orkugeiranum. Það eru líka sveitarfélögin. Ég veit ekki betur en að Reykjavíkurborg sé næststærsti eða jafnvel stærsti eignaraðili að Landsvirkjun og hefur knúið þar fram stefnubreytingu á undanförnum árum í þá veru að Landsvirkjun innheimti arð af eigin fé sem þessir eignaraðilar telja sig eiga þar, og rukki það inn hjá notendunum inni í viðkomandi sveitarsjóði. Ég veit ekki betur, herra forseti, en að þeir sem búa á Vestfjörðum við mjög hátt orkuverð miðað við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu séu skattlagðir til þess að geta borgað arð í borgarsjóð Reykjavíkur.

Herra forseti. Er á það bætandi þegar t.d. fólk á Vestfjörðum þarf að greiða miklu hærra orkuverð en fólkið sem býr á höfuðborgarsvæðinu, að borgarsjóður Reykjavíkur geri kröfu um að þeir sem borgi meira borgi enn meira til að eiga fyrir sérstökum skatti í borgarsjóð Reykjavíkur? Það finnst mér lítið réttlæti, herra forseti, og hef mótmælt því á fyrri þingum þegar það mál kom til umræðu. En ég varð ekki var við að þeir þingmenn sem eru nú í stjórnarandstöðunni hafi þá haft sömu skoðun og ég í þeim efnum, heldur hið gagnstæða. Mér finnst það ekki merkileg jafnaðarstefna, herra forseti, að styðja þá stefnu að skattleggja þá sem borga meira til þess að þeir sem borgi minna geti fengið sérstakan skatt því til viðbótar. Ég kann ekki að meta þá jafnaðarstefnu, herra forseti. Ég tel að þeir sem eru að leggja af stað í nýja vegferð með nýtt stjórnmálaafl --- ég óska þeim alls hins besta í starfi sínu --- þurfi að gera grein fyrir því hvers vegna þeir afneita öllum grundvallaratriðum jafnaðarstefnu í stefnumörkun sinni, t.d. á því sviði sem við ræðum hér.

Ég vil líka nefna eitt dæmi enn af því að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir gat um það að íslenska þjóðin ætti orkuna og allir ættu rétt að fá sinn skerf af þeim arði sem hægt væri að skapa með því að nýta þá orku. Hvers vegna tekur hún þá ekki undir það að öllu leyti þegar orkan á í hlut? Ég rifja það upp að heitt vatn er hluti af orkugjöfum Íslands. Það hefur ekki verið vilji fyrir því á Alþingi að skilgreina það sem eign þjóðarinnar, m.a. vegna þess að þeir flokkar sem standa að Samfylkingunni hafa ekki verið stuðningsmenn þess að öllu leyti. T.d. hefur Alþfl., meðan hann var og hét í þingsölum, ekki talað fyrir því sjónarmiði að heitt vatn væri þjóðareign. Það skiptir nefnilega máli. Heita vatnið hér gerir það að verkum að þeir sem njóta þess hér fá um 4 milljarða kr. í kjarabót vegna þess hve kostnaðurinn er lágur, 4 milljarða kr. í kjarabót á ári hverju. Og ég spyr: Er þessari kjarabót dreift til allrar þjóðarinnar? Fær hver Íslendingur réttlátan skerf í arðinum af þessari kjarabót, herra forseti? Það væri fróðlegt að heyra hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur svara því.

[11:30]

Ég get svarað því fyrir mitt leyti. Svo skulum við heyra hvort þingmaðurinn hefur annað svar. Svar mitt er að svo er ekki. Hún og aðrir þingmenn hér segja: Þetta er séreign okkar sem búum hér. Og þeir taka alla þessa kjarabót til sín. Hinir sem búa annars staðar og njóta ekki þessarar auðlindar fá ekkert.

Er það stefna hins nýja stjórnmálaafls að svo eigi að vera að arðurinn af þessari auðlind sé bara fyrir þá sem búa hér en ekki þá sem búa annars staðar? Er það hin nýja jafnaðarstefna sem menn ætla að bera inn á næstu öld?

Herra forseti. Ég verð að segja að öll teikn sem uppi eru um stefnu hins nýja stjórnmálaafls í þessum málum eru á þann veg að þeir eigi að fá mikið sem eru stærri og standa betur, hinir eigi að bera skarðan hlut frá borði. Það sem m.a. styður þessa skoðun mína eru viðbrögð þeirra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem tekið hafa til máls þar sem þeir vara við sanngjörnum og eðlilegum aðgerðum sem boðaðar eru í þessu frv. til að styrkja stöðu þeirra sem veikar standa.

Enn vil ég spyrja: Telja þingmennirnir líka eðlilegt að þeir sem búa hér þurfi ekkert að leggja til við að kosta dreifikerfi til að flytja rafmagnið um landið allt? Kemur þeim landið ekki við að öðru leyti? Eru það bara hinir fáu sem búa í hinum dreifðu byggðum sem eiga að borga þennan stofnkostnað og rekstrarkostnað? Eiga hinir bara að hirða arðinn, herra forseti?