Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:02:40 (4130)

1999-02-26 12:02:40# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:02]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að hæstv. ráðherra sem fagnaði því að samstaða væri okkar á milli um málið viti að ég er ekki að búa til ágreining að jafnaði í málum heldur fer það eftir efni máls. Vissulega er það rétt að okkur hæstv. ráðherra hefur greint á um og greinir á um mjög veigamikla hluti í sambandi við orkumálin. Það er líka gott þegar leiðir liggja saman.

Ég vildi aðeins bæta því við vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið og vegna þess sem kom fram hjá hæstv. ráðherra um breytingar í orkumálum okkar varðandi samkeppni sem tengist reglugerð eða tilskipun Evrópusambandsins frá 1996 --- hún hefur verið til athugunar síðan en ekki hefur enn þá verið fallist á hana innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í hinni sameiginlegu nefnd --- að þar er um mjög stórt mál að ræða. Till. til þál. sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið á síðasta vetri tengdist málinu. Hún var ekki afgreidd. Þetta er í raun mjög gott dæmi um það hversu langsótt það er á vissum sviðum að ætla okkur að þurfa að kópíera tilskipanir frá Evrópusambandinu sem er með sinn stóra og samtengda markað en við hér langt úti í hafi með einangrað kerfi og lítinn markað miðað við það sem við berum þetta saman við. Ég er ánægður með að menn hafa farið sér hægt í sambandi við þessa tilskipun. Við í þingflokki óháðra höfum lagt til að við frestum því einfaldlega að innleiða hana. Ég veit ekki hvað kemur að lokum út úr hinni sameiginlegu nefnd, EES-nefnd, sem svo er kölluð. En ég held að menn þurfi að gæta sín mjög á því að fara ekki út í ófæru að þessu leyti. Ég er opinn fyrir því að skoða möguleika okkar til þess að bæta orkubúskap okkar út frá þjóðhagslegum forsendum en við eigum að varast það að kópíera fyrirmæli sem eru vaxin upp úr allt öðru samhengi.