Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:05:19 (4131)

1999-02-26 12:05:19# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:05]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að við eigum að varast það að kópíera það sem manni virðist falla vel að aðstæðum annars staðar beint yfir til okkar enda hafa verið skýrir fyrirvarar alla tíð af hálfu stjórnvalda á Íslandi gagnvart þessari tilskipun um innri markað á sviði raforku.

Hún tók gildi núna 19. febrúar 1999 en ekki á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, það er hárrétt. Hún hefur ekki enn þá verið tekin til umfjöllunar í sameiginlegu nefndinni. Við settum strax skýra fyrirvara um að við mundum, ef hún tæki til alls svæðisins, a.m.k. ekki taka hana upp fyrr en 19. febrúar 2001 þegar síðasta Evrópusambandsríkið, Grikkland, hyggst taka hana upp hjá sér. Við erum enn þá með þessa skýru fyrirvara um litla hagkerfið, einangraða orkukerfið og þar fram eftir götunum.

Ég held hins vegar að nokkrir þættir í þessari tilskipun geti fallið ágætlega að okkar aðstæðum. Ég held að skynsamlegt sé fyrir okkur að greina skýrt á milli í vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku þannig að það sé skýrt hvernig kostnaður á einstaka þætti fellur. Það gefst okkur tækifæri til að gera. En um leið og við gerum þetta eigum við á okkar eigin forsendum að setja upp okkar eigið fyrirkomulag og út á það gengur sú vinna sem nú er í gangi í iðnrn. Ég ætlaði mér að geta lagt fyrir þingið frv. til nýrra raforkulaga. Það mun því miður ekki takast. Ég ætlaði í næstu viku að kynna það fyrir hagsmunaaðilum. Það dregst um eina viku en áður en til kasta þingsins kemur --- nú kann að fara að svo verði alls ekki --- en meðan ég er í iðnrn. þá hef ég hugsað mér að nota vorið til að kynna það fyrir hagsmunaaðilum, sveitarfélögum, fyrirtækjum sem starfa á þessu sviði og hinu pólitíska baklandi þingsins um það hvað þar er á ferðinni.