Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:11:56 (4134)

1999-02-26 12:11:56# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:11]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég held að sérstaklega þurfi að gæta að og það sem bjó að baki hugleiðingum mínum um neytendaverndina er að greint verði tryggilega á milli kostnaðarins við orkuöflun, orkuframleiðslu og dreifingu hennar eftir atvikum hjá viðkomandi fyrirtæki, og hins vegar á milli reksturs sem getur talist til áhætturekstrar eða þegar farið er að ráðstafa fjármagni í verulegum mæli út úr fyrirtækinu, eftir atvikum í óskyldan rekstur, áhættufyrirtæki og óskyldan rekstur, vegna þess að þegar um er að ræða einokun á sölu, sem við getum kallað svo, þegar um er að ræða staðbundinn markað þar sem tiltekið fyrirtæki hefur einokun á sölunni, þá á notandinn í rauninni heimtingu á því að engin ævintýramennska sé að baki hjá viðkomandi fyrirtæki, þ.e. að ekki sé verið að ráðstafa fjármunum sem eru ætlaðir til þess að framleiða orku og eftir atvikum til að ná niður orkuverðinu, í óskylda hluti. Það getur út af fyrir sig verið bókhaldslegt eða að til þurfi að koma uppsetning, rekstrarleg aðgreining, til þess að svona sjónarmið séu í heiðri höfð.

Hitt er jafnljóst að það á að reyna að greiða fyrir því að þekking og reynsla nýtist. Ég er alveg sammála hv. þm. um það atriði. Innan orkufyrirtækja okkar er um að ræða verulegan auð sem auðvitað er sjálfsagt fyrir þjóðina að nýta sem best. Að því stefnir þetta mál. Hv. þm. nefndi merkar nýjungar á þessu sviði, t.d. í sambandi við vetnisframleiðslu og við þurfum auðvitað að greiða fyrir því að sú þróun geti gengið sem best fyrir sig.