Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 12:15:55 (4136)

1999-02-26 12:15:55# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[12:15]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að það sem hér var rætt um, þróun í sambandi við aðgreiningu á meginframleiðslu og megindreifingu á raforku, eigi eftir að leiða til þess að staðbundnar rafveitur og staðbundnar hitaveitur búi ekki eftir sem áður að sínum markaði þannig að í smásölunni og dreifingu á lægsta stigi verði eftir sem áður um að ræða sérréttindi viðkomandi fyrirtækja. Ég tel mestu varða í sambandi við það efni sem við ræðum hér að notandinn sé í rauninni í gegnum sinn reikning frá þessu fyrirtæki ekki að borga fyrir neitt annað en þjónustu sem vel er skilgreind, eftir atvikum vöru, ef við köllum orkuna vöru í þessu sambandi, að hann sé ekki að leggja til með einhverju óskyldu, kannski óvitandi um hvað sé á ferðinni. Það er þetta sem ég er með í huga og ef þetta gerist í einhverjum verulegum mæli þá fellur það engan veginn að venjulegri hugsun í sambandi við sérréttindi, einokun eða einkarétt varðandi sölu á vöru ef hægt er að nota það til skattlagningar í óskyldu samhengi sem löggjafinn hefur hvorki út af fyrir sig ætlað né leyfisveitandinn gert ráð fyrir.

Menn þurfa að gæta að þessum viðhorfum.