Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:11:34 (4143)

1999-02-26 14:11:34# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að koma nokkrum almennum athugasemdum á framfæri í umræðum um þetta stóra mál þótt ég geti fúslega játað að ég hefði kosið að hafa haft meiri tíma til að skoða það. Hér er að mínu mati eitt af stærri málum sem fyrir þetta þing og jafnvel á þessu kjörtímabili hefur borið upp því að sjálfar grundvallarleikreglurnar um starfshætti Alþingis skipta vissulega miklu máli. Fyrst held ég að rétt sé að gera þá játningu, herra forseti, fyrir hönd þingsins að það er auðvitað ekki gott að vera með þetta stóra mál svona seint á ferðinni þegar klukkuna vantar korter í tólf á þessu kjörtímabili sem senn er á enda runnið. Það er hefðbundið að gagnrýna ríkisstjórn og því miður oft með réttu fyrir að koma seint og illa fram með sín mál fyrir þingið og þar af leiðandi er ekki gott að Alþingi fyrir sitt leyti gefi fordæmi af þessu tagi með því að leggja fyrir viðamikið frv. sem felur í sér umtalsverðar breytingar á þingsköpum Alþingis jafnseint og raun ber vitni. Við vitum reyndar að ýmsar ástæður valda þessu og það má kalla slys að þetta frv. var ekki til umfjöllunar hér í fyrra og jafnvel afgreiðslu í fyrravor eins og til stóð að ég held. Mér er kunnugt um að mikil vinna hefur verið lögð í málið og margt mjög vel gert á undanförnum missirum þannig að því miður er Alþingi eða formönnum þingflokka eða forsætisnefndarmönnum kannski ekki að öllu leyti sjálfrátt í þessum efnum og verður að hafa það í huga, en óheppilegt er það engu að síður. Reyndar er það svo, herra forseti, að það má færa fyrir því gild rök að mál af þessu tagi þurfi Alþingi að tímasetja alveg sérstaklega hvernig það vinnur og taka mið af þeim aðstæðum sem liggja fólgnar í upphafi og endi hvers kjörtímabils, þá koma nýir þingmenn til starfa og undir lok kjörtímabils liggur orðið fyrir að margir aðrir hverfa á braut. Það er að mínu mati, herra forseti, hvorugt rétti tíminn til að vera í vinnu sem lýtur að grundvallarstarfsskipan í þinginu. Þetta er með öðrum orðum, herra forseti, mál sem heppilegt væri að hafa til umfjöllunar og afgreiðslu um miðbik kjörtímabils þannig að þá rynnu saman og sættust þessar andstæður, endurnýjun í upphafi hvers kjörtímabils eða að afloknum kosningum og reynsla hinna sem hverfa á braut.

Einnig má færa fyrir því rök að æskilegt sé að slíkar breytingar séu lögfestar með nokkuð góðum aðdraganda, t.d. að þær væru frágengnar og afgreiddar og gerðar að lögum á þriðja vetri kjörtímabils en tækju ekki gildi fyrr en við upphaf nýs kjörtímabils.

Í öðru lagi er enginn vafi á því, herra forseti, að þörf er á að breyta ýmsu í þingsköpum Alþingis og kemur ekki á óvart. Þau eru um margt sniðin að öðrum tímum og mönnum hefur út af fyrir sig verið það lengi ljóst að margt í skipulagi okkar mætti betur fara. Þannig er vissulega með þetta frv. að það felur í sér margar góðar tillögur um úrbætur á þessu sviði en það eru líka í því atriði sem eru verulegt umhugsunarefni.

[14:15]

Mér er eins og mörgum öðrum í umræðunum efst í huga að útgangspunktur breytinganna eigi að vera sá að styrkja Alþingi og er ekki vanþörf á, herra forseti, svo vægt sé til orða tekið. Ég leyfi mér að fullyrða að nógu dapurlega sé komið fyrir lögvarinni stöðu Alþingis þó að ekki takist svo illa til við breytingar á þingsköpum að þær verði til hins verra.

Ég minni t.d. á hvernig lögvarið hlutverk utanrmn. er hunsað. Við erum minnt á það aftur og aftur að ríkisstjórnir hafa að engu skyldu sína til að hafa samráð við þessa mikilvægu nefnd. Fyrir því eru mýmörg óhrekjanleg dæmi og þar á meðal eitt alveg glænýtt. Þetta er okkur til áminningar um að ekki megi sofna á verðinum í þessu efni.

Hvernig styrkja menn svo þingið, herra forseti? Hvernig efla menn þingræðið í landinu? Að mínu mati snýst það að miklu leyti um eitt og aðeins eitt: Að styrkja stjórnarandstöðuna. Að styrkja og treysta rétt minni hlutans í þinginu á hverjum tíma til að sinna störfum sínum og rækja skyldur sínar. Þaðan og fyrst og fremst þaðan verður aðhaldið að koma, a.m.k. eins og málin standa á Íslandi. Reynslan er sú að stjórnarflokkar og þingmenn þeirra eru undir allt of miklum þrýstingi, of þungu oki til að hægt sé að treysta á að þaðan komi verulegur stuðningur fyrir þingræðið sem slíkt. Hann verður fyrst og fremst að koma í gegnum sterka stöðu stjórnarandstöðunnar, lögvarinn rétt minni hlutans til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og hafa hönd í bagga með skipulagi starfshátta á þinginu, ákvæðum sem tryggja að ekki sé valtað yfir minni hlutann. Þetta sýnir sagan.

Hér gerist það mjög sjaldan sem þekkist sums staðar erlendis, að þingin eru það sjálfstæð og einstakir þingmenn það sjálfstæðir að stjórnarþingmenn veita herrum sínum, ráðherrunum og ríkisstjórninni, aðhald. Það gerist mjög sjaldan hér borið saman við það sem þekkt er víða erlendis. Þess þá heldur er mikilvægt að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar og minni hlutans.

Auðvitað er margt fleira sem kemur til. Það að bæta starfsaðstæður þingmanna almennt hjálpar til í þessum efnum. Það að styrkja þingið sjálft, efla t.d. starfsmannahald og auka sérfræðiaðstoð innan þingsins, þannig að þingið hafi meiri burði til að vinna á sínum forsendum. Það hjálpar til en þarna þarf margt að koma til. Mér er engin launung á því og það er reynsla mín eftir tæpa 16 ára veru hér eftir að hafa kynnst hlutskipti hvoru tveggja, að vera í stjórn og stjórnarandstöðu, að eitt það allra mikilvægasta í þessu sambandi sé réttur stjórnarandstöðunnar.

Ég ætla svo að koma, herra forseti, að nokkrum atriðum sem lúta að breytingum sem lagðar eru til í þessu frv., og tek fram að ég fagna þar ýmsum nýmælum. Ég tel t.d. ekki nokkurn vafa á því að skynsamlegt sé að taka upp þá skipan að þingmál geti lifað lengur en eitt þing þannig að ekki þurfi að byrja allt upp á nýtt á hverju hausti. Ég hefði reyndar viljað tengja það ákvæði sérstakri skilaskyldu þingnefnda á málum sem fyrir nefndinni hafa legið. Þegar þingmál hefði verið til umfjöllunar tvo vetur samfellt mundi sú skylda hvíla á nefndinni undir lok síðari vetrarins, burt séð frá afstöðu hennar til málsins, að gera þinginu grein fyrir niðurstöðu sinni í málinu. Þannig lægi málið ekki afvelta án nokkurra vísbendinga um framhaldið. Þannig mundu þingnefndirnar rífa sig upp úr því að vera einhvers konar safnkistur fyrir afdönkuð þingmál, eins og þær hafa í stórum stíl verið. Menn hafa jafnvel gengið svo langt, sumir mætir þingmenn, að telja eina höfuðskyldu þingnefnda að svæfa vitlaus þingmál, eins og það var orðað hér einu sinni af ágætum fyrrv. þingmanni.

Ég fagna því þessu nýmæli. Ég get tekið undir það að fyrirspurnir þingmanna verði leyfðar í þinghléum. Það er mjög mikilvægt, enda sé þá rétturinn til að krefja upplýsinga virtur og ekki vaðið yfir hann með annarri lagasetningu eins og fjmrn. telur að gert hafi verið með upplýsingalögunum. Þau heita þá frekar leyndarlög en upplýsingalög ef fara á að nota þau þannig að hægt sé að neita Alþingi um upplýsingar á grundvelli þeirra. Það er þá nokkuð langt gengið, herra forseti, satt best að segja, a.m.k. miðað við venjulega máltilfinningu, að beita upplýsingalögunum í því skyni. Réttur Alþingis til upplýsinga og til þess að krefja ráðherra svara verður að vera virkur og virtur í þessu tilfelli.

Nýtt form á umræðum, þar sem menn geti krafið ráðherra um skýrslur um brýn og aðkallandi mál, er líka þýðingarmikið. Ég vil bæta einu við varðandi samskipti framkvæmdarvalds og þings. Ég tel að í þingsköpin eigi að koma ótvírætt ákvæði um, ekki bara heimild og möguleika á að ráðherrar mæti hjá þingnefndum heldur um skyldu ráðherra til að mæta fyrir þingnefnd ef þingnefndin óskar þess. Þar bæri honum skylda til gera nefndinni grein fyrir málum og leggja fram upplýsingar. Auðvitað er með ólíkindum hvernig þessir hlutir hafa þróast lengst af, að ráðherrar hafa trekk í trekk neitað að mæta fyrir þingnefnd og litið svo á það væri ekki þeirra hlutverk. Þeir hafa jafnvel talið það sérstakt örlæti og gæsku af sinni hálfu að leyfa embættismönnum sínum að reka þar inn nefið. Ég hef orðið fyrir því í þingnefnd að ráðherra hefur neitað að mæta og sagt að hann teldi það ekki hlutverk sitt.

Ég hef að vísu oft kynnst hinu gagnstæða. Sjálfur hef ég mætt sem ráðherra fyrir þingnefndir og talið sjálfsagt að veita þeim upplýsingar. Ég vek athygli á því að víða í þjóðþingunum í kringum okkur er engin spurning um þetta heldur einfaldlega skylda ráðherra að mæta til funda hjá þingnefndum og sitja þar fyrir svörum. Við gætu kallað það yfirheyrslu, á erlendum málum er það kallað ,,hearings``. Þetta geta jafnvel verið opnir nefndarfundir þannig að viðstaddir geti verið fjölmiðlafulltrúar og aðrir sem áhuga hafa á. Þannig er þetta t.d. í sænska þinginu. Ráðherrar mæta þar nokkuð reglulega fyrir þingnefndir og það er jafnvel svo að ráðherrar hafa frátekinn tíma í stundatöflu sinni fyrir fundi mikilvægra þingnefnda til að geta mætt þar ef kall berst. Í Bandaríkjunum þekkja menn þetta fyrirkomulag. Þar funda nefndirnar í stórum sölum, iðulega að viðstöddum miklum fjölda áheyrenda, jafnvel erlendra gesta. Ráðherrarnir sitja á bekk niðri á gólfi og eru yfirheyrðir þar, krossspurðir þannig að ýmsum mundi sennilega þykja nóg um á Íslandi. Þetta þykir þó sjálfsagður hlutur.

Það að forseti og varaforsetar verði kjörnir fyrir allt tímabilið tel ég koma vel til greina og að mörgu leyti vera heppilegt. Ég er hins vegar afar ósáttur við orðalagið varðandi skipan forsn. Ég tel það fráleita skipan að ganga ekki út frá því að allir þingflokkar, eða a.m.k. fjórir stærstu þingflokkarnir, eigi fulltrúa í forsn. Mér er það auðvitað ljóst að ef þingflokkarnir verða mjög margir þá kann að orka tvímælis að hafa þar inni fulltrúa frá hverjum og einum. Það mætti hugsa sér að leysa annaðhvort með áheyrnarfulltrúum eða með róterandi fulltrúum sem minni þingflokkar kæmu sér saman um. Grundvallarreglan ætti að vera sú að í forsn. sætu fulltrúar fjögurra stærstu þingflokkanna eða allra fjögurra ef sú skyldi verða niðurstaðan. Það kann vel að vera, eins og stundum áður í Íslandssögunni, að þingflokkarnir yrðu hér fjórir. Þá er augljóslega heppilegt, út frá samskiptum og samráði um störf þingsins, að í forsn. sitji tengiliðir við alla þingflokka ef þingflokkar eru ekki of margir.

Hvað varðar fækkun atkvæðagreiðslna, ný ákvæði um meðferð fyrirspurna og fleira af því tagi flokka ég undir nauðsynlegar leiðréttingar.

Svo ég snúi mér að því sem ég hef meiri efasemdir um, þá er það í fyrsta lagi nefndabreytingin. Ég tel að þó mjög æskilegt og skiljanlegt að leitast við að einfalda nefndaskipanina, á mannamáli að fækka þingnefndunum, helst niður í að hver þingmaður sitji ekki nema í einni nefnd. Það hefur augljósa kosti til að skipuleggja störfin hér. Þá geta þingnefndir alltaf fundað samsíða. Það þyrfti ekki að skipuleggja sérstaka fundatöflu þeirra með tilliti til veru þingmanna í fleiri en einni nefnd o.s.frv. En ekki má ganga svo langt í þeirri viðleitni að annað verði borið ofurliði, t.d. að hægt sé að dreifa vinnu og verkefnunum skynsamlega í þinginu.

Ég óttast að þessi atvinnumálanefnd sem á að fá til umfjöllunar öll verkefni iðnn., öll verkefni landbn., öll verkefni sjútvn. og verulegan hluta af verkefnum efh.- og viðskn. og allshn., eins og þetta hefur verið núna., gangi ekki upp. Hún yrði svo ofhlaðin við ýmsar aðstæður hér í þinginu að það gengur ekki upp. Ég hefði talið að nær að reyna að deila þessu á tvær nefndir þannig að aðalatriðin væru í einni nefnd, atvinnuþættirnir, t.d. landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál, jafnvel málefni iðnaðarins sem slíks; í hinni viðskipta-, verslunar- og þjónustumálin, bankamálin, þess vegna byggðamál og eitthvað fleira af verksviði allshn. Þetta væru tvær nefndir en ekki ein.

Ég hef efasemdir um, út frá efnahagslegu hliðinni, að þarna sé að öllu leyti rétt niðurstaða hvað varðar fjármálanefndina með því að sameina þar allt sem áður hefur tilheyrt fjárln. eða verulegan hluta þess, skattamálin, efnahagsmálin almennt, lífeyrismál o.s.frv.

Dómsmálin og menntamálin kunna út af fyrir sig að fara ágætlega saman, og þó ekkert endilega. Alveg eins mætti leysa þetta með því að ein nefnd héti stjórnlaga- og dómsmálanefnd og þau mál væru sett undir nefnd sem færi sérstaklega með réttarfarsmálefni, dómsmál og jafnframt með stjórnlagamálefni, skýrslugerðina og annað slíkt. Ég er ekki frá því að það væri heppilegri samsetning en að skella dómsmálum og menntamálunum í eitt. Mér sýnist þar af leiðandi, herra forseti, að vel mætti ná þarna verulegum árangri, fækka þingnefndunum t.d. um þrjár eða fjórar en ganga þó ekki jafnlangt og þarna er gert. Ég óttast einfaldlega að sú skipan mála brotni upp.

Um ræðutímann vil ég segja, herra forseti, að ég er ekki á móti því að reyna að þróa störfin í þinginu almennt í þá átt að gera umfjöllun um mál markvissari og ræður styttri ef svo ber undir. Ég vil hins vegar gera það á grundvelli hefða og þróunar. Ég vil helst sjá það gerast þannig að menn nái samkomulagi um ramma utan um ræðuhöld, sem sé virtur og haldinn á grundvelli samkomulags nema þá í einhverjum algjörum undantekningartilvikum. Með öðrum orðum tel ég að óheftur eða ótakmarkaður ræðutími, t.d. við 2. umr., sé eftir sem áður grundvallarrétturinn, bundinn í stjórnarskrá ef svo ber undir. Ég er vísa t.d. til fyrirkomulagsins í finnska þinginu. Þar heyrir til algerra undantekninga að ræðuhöld fari út fyrir þann ramma sem hefðin helgar og samkomulag er um milli stjórnmálaflokka. Engu að síður er í finnsku stjórnarskránni bundið það ákvæði sem grunvallarregla að ræðutími sé ótakmarkaður í finnska þinginu.

Ég tel heldur aumt, herra forseti, ef Alþingi Íslendinga sem stærir sig af því á hátíðarstundum að vera elsta þjóðþing í heimi, þorir ekki að hafa sérreglur um fundahöld í lögum sínum og þarf að apa alla hluti upp eftir öðrum. Það hefur lengi verið hluti af hinni íslensku þingræðishefð að hafa réttindi af þessu tagi ótakmörkuð. Þau eiga að vera það að mínu mati, a.m.k. per definisjón, herra forseti, og að lögum, hvernig sem hefðin helgar þau.

Mestu máli skiptir þó, herra forseti, að það er ekki hægt að skera ræðutímann niður við trog. Hann hefur, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, verið eitt helsta tæki og stundum nánast eina tæki stjórnarandstöðunnar til að gera sig gildandi og veita aðhald án þess að nokkuð annað komi á móti. Ég segi alveg hiklaust að ég er ósammála niðurstöðunni sem hér er lögð til í frv. Í henni er ekkert jafnvægi milli stjórnarandstöðu og meiri hluta vegna þess að það á að skera einhliða niður og takmarka rétt stjórnarandstöðunnar sem hefur falist í málfrelsinu án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Ef við værum að tala um að í staðinn kæmu ákvæði sem tryggðu og treystu stöðu stjórnarandstöðunnar, t.d. þau að stjórnarandstaðan ætti á hverjum tíma forseta þingsins og a.m.k. helming af formönnum þingnefnda, þá værum við að tala um allt aðra hluti. Þá værum við að tala um tillögur sem tækju mið af því að raska ekki minni hlutanum í óhag, því takmarkaða valdajafnvægi sem hægt er að segja að sé við lýði hér.

Það verður að ræða þetta, herra forseti, eins og hlutirnir eru og á mannamáli. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr hefur óheftur ræðutími verið sá réttur sem hefur tryggt stjórnarandstöðu og minni hluta einhverja stöðu hér inni. Þá er ekki hægt að gelda hann með breytingum af þessu tagi, án þess að neitt annað komi í staðinn. Þá er bara verið að segja: Við ætlum að ganga enn lengra á þeirri braut en nú í að valta yfir minni hlutann. Því er ég andvígur, herra forseti, og mun ekki samþykkja það.