Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:57:40 (4150)

1999-02-26 14:57:40# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., Flm. ÓE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:57]

Flm. (Ólafur G. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort okkur greinir svo mjög á um þetta atriði. Við erum áreiðanlega sammála um það að minni hlutinn getur ekki fengið þau réttindi að ganga á rétt meiri hlutans og það þarf að tryggja meiri hlutanum líka tiltekna stöðu. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því. En við erum kannski ekki sammála um hversu langt á að ganga.

Við töluðum áðan um skipan forsn., að fjórir stærstu flokkarnir ættu fulltrúa í forsn. Ég held að það kunni kannski að vera svolítið erfitt að finna einhvern algildan sannleika í þessu eða reglu sem alltaf gengur upp. Ég get sagt strax að mér þætti ekkert eðlilegt ef fjórir flokkar væru á þingi og einn þeirra væri langminnstur, kannski bara með þrjá fulltrúa, þá sýnist mér það ekki liggja á borðinu að mesta réttlætið væri fólgið í því að vegna þess að reglurnar væru þannig að fjórir flokkar skyldu eiga fulltrúa, að þá væri það svo.

Ég er heldur ekki, af því að ég kom því ekki að áðan, sammála því sem hv. þm. sagði í ræðu sinni og kemur inn á þetta andsvar líka, að út af fyrir sig væri eitthvert réttlæti fólgið í því að stjórnarandstaðan ætti alltaf forseta þingsins og að stjórnarandstaðan ættu helming formanna fastanefnda. Ég hef miklar efasemdir um það ef við settum slíka reglu. Það hlýtur að fara eftir því hversu miklu munar á stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum. Það væri mjög einkennileg staða ef stjórnarandstæðingar væru kannski einhver lítill hluti þingsins, sem vel getur orðið, en ættu engu að síður helminginn af nefndaformönnum. Ég veit ekki hvort hv. þm. meinti þetta svona bókstaflega. En ég segi þetta bara til þess að undirstrika að það kann að vera erfitt að setja einhverja slíka fasta reglu í þingsköp.