Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:19:43 (4158)

1999-02-26 15:19:43# 123. lþ. 73.7 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:19]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 900 ásamt meðfylgjandi brtt. Það er um frv. til laga um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum.

Frumvarpið felur í sér endurskoðun gildandi laga um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum, með síðari breytingum. Meginbreytingin sem í frumvarpinu felst snýr að útgáfu leyfa en gert er ráð fyrir því að Vegagerðin annist útgáfu leyfa til fólksflutninga með hópferðabifreiðum í stað samgönguráðuneytis. Á þann hátt er umsækjanda tryggður réttur til málskots til æðra stjórnvalds ef hann sættir sig ekki við afgreiðslu umsóknar. Þá er gert ráð fyrir að Vegagerðin annist eftirlit með fólksflutningum. Jafnframt er gert ráð fyrir að nú þurfi leyfi Vegagerðarinnar til allra fólksflutninga með hópferðabifreiðum ef gjald kemur fyrir aksturinn. Til viðbótar því leyfi þarf svo að sækja sérstaklega um önnur leyfi, t.d. sérleyfi, einkaleyfi eða leyfi til fólksflutninga með sérútbúnum bifreiðum.

Vegna fram kominna athugasemda við 5. gr. frumvarpsins telur samgöngunefnd rétt að ítreka að gildissvið frumvarpsins tekur ekki til leigubifreiða í kaupstöðum og mun því ekki hafa áhrif á starfsemi þeirra. Jafnframt telur nefndin rétt að árétta að 9. gr. frumvarpsins, sem geymir ákvæði um sérstakt leyfi til aksturs sérútbúinna bifreiða, felur ekki í sér heimild til hefðbundins aksturs leigubifreiða. Það nýmæli felst í 9. gr. að eftir gildistöku laganna verður öllum sem flytja ferðamenn um óbyggðir landsins skylt að hafa almennt leyfi til fólksflutninga skv. 3. gr. auk þess sérstaka leyfis sem mælt er fyrir um í 9. gr.

Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ekkert leyfi þurfi til flutnings í eigin þágu. Ákvæði þetta var sett inn í frumvarpið til áréttingar um að ekkert leyfi þurfi til slíks aksturs þótt hann falli að jafnaði utan við gildissvið laganna.

Eitt af skilyrðum fyrir útgáfu leyfis skv. 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins er að umsækjandi þarf að fullnægja skilyrðum um starfshæfni. Til skýringar vill nefndin taka fram að með því er m.a. átt við að umsækjendur geta þurft að sækja námskeið og uppfylla önnur skilyrði um kunnáttu áður en þeir fá leyfi úthlutað.

Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Breytingartillögurnar fela almennt séð ekki í sér verulegar efnisbreytingar heldur er orðalag víða fært til betri vegar, skipulag texta lagfært, kaflaheiti tekin út og fyrirsagnir lagfærðar.

Undir þetta nál. rita auk formanns og framsögumanns hv. þm. Stefán Guðmundsson, Egill Jónsson, Ragnar Arnalds, Magnús Stefánsson, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Kristján Pálsson.