Skipulag ferðamála

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:22:24 (4159)

1999-02-26 15:22:24# 123. lþ. 73.8 fundur 361. mál: #A skipulag ferðamála# (skipan ferðamálaráðs) frv., Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 857 um frv. til laga um breytingu á lögum um skipan ferðamála.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipan Ferðamálaráðs þannig að fulltrúum í ráðinu verði fækkað úr 23 í sjö og framkvæmdastjórn þess lögð niður í kjölfarið. Fjöldi fulltrúa í ráðinu hefur hefur gert störf Ferðamálaráðs þung í vöfum og því mikið hvílt á framkvæmdastjórninni. Með breytingunni er þess vænst að ráðið verði skilvirkara en verið hefur. Komið hefur fram gagnrýni á að Ferðamálaráði sé einungis skylt að halda einn fund á ári en í 2. mgr. 3. gr. laga um skipulag ferðamála er kveðið á um að í janúar ár hvert skuli halda fund og afgreiða fjárhagsáætlun ársins en aðrir fundir skuli haldnir samkvæmt ákvörðun ráðsins eða framkvæmdastjórnar. Frumvarpið gerir ráð fyrir óbreyttri tilhögun þannig að Ferðamálaráð ákveður hvenær fundir skulu haldnir og hversu oft. Nefndin telur ekki rétt að lögbinda ákveðinn lágmarksfjölda funda en gengur út frá því að nýskipað Ferðamálaráð muni funda reglulega og eins oft og þurfa þykir svo það megi fullnægja hlutverki sínu skv. 7. gr. laganna.

Í ljós kom við meðferð málsins að um þetta mál virðist vera allgóð samstaða og hv. samgn. mælir með samþykkt þess.

Undir nál. rita auk formanns og framsögumanns hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Egill Jónsson, Ragnar Arnalds, Árni Johnsen, Magnús Stefánsson og Kristján Pálsson. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins.