Réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:24:36 (4160)

1999-02-26 15:24:36# 123. lþ. 73.10 fundur 261. mál: #A réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum# (rökstuðningur uppsagnar) frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir.

Í frumvarpi þessu er lagt til að atvinnurekendum verði skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns, óski starfsmaðurinn eftir því. Skal uppsögnin rökstudd skriflega og tilgreindar ástæður hennar. Breyting þessi er í samræmi við það sem kveðið er á um í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda, sbr. tillögu nr. 166 um sama efni, og er sú samþykkt og tillagan jafnframt fylgiskjal með frv. Samþykkt nr. 158 tekur reyndar til fleiri þátta starfsöryggis en í þessu frv. er einn þeirra tekinn út og lagt til að hann verði lögfestur.

Þá er rétt að taka fram að sú sem hér stendur hefur ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur tvívegis lagt fram till. til þál. um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda og er sú tillaga nú til meðferðar í hv. félmn. en svo virðist að ekki sé pólitískur vilji af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að afgreiða málið og tel ég það vera miður.

Frv. því sem hér er mælt fyrir er ætlað að rétta stöðu íslensks launafólks lítillega hvað varðar leikreglur við uppsagnir, en þær eru mjög bágbornar ef við berum okkur saman við t.d. Norðurlandaþjóðirnar og reyndar margar aðrar þjóðir.

Hér er dreginn út einn þáttur samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 sem má annars skipta í þrjá þætti, en sá fyrsti þeirra felst í því að atvinnurekanda er gert skylt að rökstyðja uppsögn starfsmanns ef eftir því er óskað. Sá þáttur er dreginn út í þessu frv. Samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar tekur reyndar líka til fleiri þátta því að m.a. felur hún í sér að starfsmanni skuli ekki sagt upp nema til þess sé gild ástæða í sambandi við hæfni eða hegðun starfsmanns eða hún byggist á rekstrarlegum ástæðum fyrirtækisins, stofnunarinnar eða þjónustunnar og að auki kveður samþykktin á um tiltekið málsmeðferðarkerfi sem starfsmaður á rétt á við uppsögn.

Hér er einungis lagt til að fólk eigi rétt á því að uppsögnin sé rökstudd ef eftir því er óskað. Það skal skýrt tekið fram að hér er ekki um að ræða skyldu til rökstuðnings í öllum tilvikum heldur einungis ef starfsmaðurinn óskar eftir því. Sé það vilji hans getur hann fengið skriflegan rökstuðning fyrir uppsögninni. Viðkomandi starfsmaður metur það síðan á eigin forsendum á hvern hátt hann vill bregðast við þeim rökstuðningi.

Verði frv. að lögum getur það haft verulega þýðingu varðandi beitingu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, en sú grein kveður á um að allir skuli jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í þessari grein stjórnarskrárinnar, sem jafnan er kölluð jafnræðisregla stjórnarskrárinnar, er einnig ákvæði um að karlar og konur skuli njóta jafns réttar í hvívetna og starfsmaður sem telur sér hafa verið sagt upp á grundvelli kynferðis ætti auðveldara með sönnunarbyrði í slíku máli ef ákvæði um skriflegan rökstuðning uppsagnar er lögfest. Sama ætti reyndar líka við ef reynir á 4. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Hún kveður á um að atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn, fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

Það verður að segjast eins og er að beiting þessarar reglu, 4. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, hefur reynst svolítið erfið í framkvæmd vegna þess að ekki er fyrir hendi skylda til að rökstyðja uppsögn þannig að atvinnurekandi getur eftir því sem honum hentar sagt fólki upp án þess að gefa upp nokkrar skýringar fyrir því og þær mega meira að segja vera annarlegar ef atvinnurekanda hentar að gefa upp skýringu á því, t.d. að maðurinn sé einfaldlega leiðinlegur eða honum líki ekki við hann. Því miður koma upp einstaka dæmi um það annað slagið. Þessu frv. er m.a. ætlað að verja launafólk fyrir slíkri óréttlátri uppsögn ef svo má orða það.

[15:30]

Með breytingu þessari er auk þess verið að jafna ákveðinn aðstöðumun sem verið hefur á milli opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði, því að skv. 44. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er skylt að rökstyðja uppsögn skriflega óski starfsmaður þess. Þá er líka höfð til hliðsjónar samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 111, um misrétti í sambandi við atvinnu eða starf, sem jafnframt er fylgiskjal með frv. Breytingin er því í anda þeirrar samþykktar sem Ísland fullgilti á sínum tíma. Þetta er samþykkt frá 1963. Því erum við bundin af þeirri samþykkt og þessi lagabreyting, þetta frv., er í raun og veru til þess gerð m.a. að styrkja þá samþykkt í sessi. Og eins og ég sagði áðan, til að jafna aðstöðumun á milli starfsmanna ríkisins annars vegar og hins vegar starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Í samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs, er með hugtakinu ,,misrétti`` átt við hvers konar greinarmun, útilokun eða forréttindi, er byggist á kynþætti, litarhætti, kynferði, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðun, þjóðernislegum eða félagslegum uppruna, og hefur í för með sér brottfall eða skerðingu á jafnrétti með tilliti til möguleika eða meðhöndlunar í atvinnu eða starfi.

Hugtakið ,,misrétti`` tekur líka til sérhvers annars mismunar, útilokunar eða forréttinda, sem hefur í för með sér brottfall eða skerðingu á jafnrétti með tilliti til möguleika eða meðhöndlunar í vinnu eða starfi, eftir því sem hlutaðeigandi aðildarríki kann að hafa ákveðið að höfðu samráði við fulltrúa aðalsamtaka verkamanna og atvinnurekenda, þar sem þau eru, og aðra aðila, sem við á.

Hvers konar mismunur, útilokun eða forréttindi varðandi tiltekið starf, sem byggist á kröfum þeim, sem því starfi fylgja, skal ekki teljast misrétti samkvæmt skilningi samþykktarinnar.

Það má líka taka fram að hvert það aðildarríki, sem bundið er af samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 111, undirgengst að það skuli með þeim aðferðum sem henta þjóðlegum aðstæðum og venju, setja þau lög og efla þess konar fræðslukerfi sem telja má að tryggi viðurkenningu og framkvæmd þeirrar stefnu sem birtist í samþykktinni. Það verður að segjast eins og er að við Íslendingar höfum kannski ekki staðið okkur sem skyldi hvað varðar þær skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur með aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni. Ég hef margoft vakið á því athygli hér hversu illa við höfum staðið okkur í fullgildingu samþykktanna. Þar erum við mikill eftirbátur t.d. Norðurlandaþjóðanna. Einnig tel ég að ekki sé nægilega vel staðið að framkvæmd þeirra allra. Vil ég benda á þessa samþykkt nr. 111 sem dæmi um það. Það er ekki nægilega tryggt að fólki sé ekki mismunað í sambandi við uppsögn á íslenskum vinnumarkaði. Ég tel að grundvallaratriði til að bæta úr því sé að starfsmaður eigi a.m.k. rétt á skýringum þegar honum er sagt upp starfi og að það séu lágmarksréttindi til þess að tryggja að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sé virt.

Herra forseti. Að lokum vil ég leggja til að máli þessu verði vísað til hv. félmn. og vona svo sannarlega að það fái þar farsæla og fljóta afgreiðslu.