Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 15:34:20 (4161)

1999-02-26 15:34:20# 123. lþ. 73.11 fundur 311. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (ráðningartími héraðspresta) frv., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Aðrir flutningsmenn eru hv. þingmenn Guðmundur Árni Stefánsson og Hjálmar Jónsson.

Með frumvarpi þessu er lagt til að héraðsprestar íslensku þjóðkirkjunnar séu ráðnir til fimm ára í senn til samræmis við það sem gildir um sóknarpresta og presta almennt samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Ekki verður séð að sérstök rök hnígi til þess að hafa aðrar reglur um héraðspresta, en samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag er ráðningartími þeirra allt að þremur árum í senn. Á kirkjuþingi árið 1997 var samþykkt að leggja til að ráðningartími héraðspresta væri allt að fimm árum í senn, en hér er lagt til að hann skuli vera fimm ár í senn til samræmis við 2. mgr. 40. gr. laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Það virðist svo, herra forseti, að við afgreiðslu laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 hafi Alþingi yfirsést að færa ákvæði um ráðningartíma héraðspresta til samræmis við það sem gert var um aðra presta, þ.e. að hann yrði fimm ár í samræmi við lögin um opinbera starfsmenn og þær reglur sem um það gilda, en þær voru samræmdar þannig að ráðningartíminn er almennt fimm ár. Héraðsprestar eru ekki mjög hávær þrýstihópur. Þeir eru aðeins fjórir á landinu öllu og þess vegna er mjög óeðlilegt að þeir séu ekki með sama ráðningartíma og allir aðrir prestar sem búa við það að vera ráðnir til fimm ára.

Eins og hér var tekið fram áðan liggur vilji kirkjuþings fyrir, þ.e. ályktun kirkjuþings frá 1997 þar sem talað er um fimm ára ráðningartímann. Þessi breyting hefur hins vegar ekki verið lögð fyrir Alþingi enn. En hér með er lagt til að þetta verði lagfært.

Þá er einnig rétt að taka fram, herra forseti, að ég hef leitað eftir áliti Biskupsstofu. Lögfræðingur Biskupsstofu hefur tjáð mér að almennur vilji sé fyrir því innan kirkjunnar að þessi breyting verði gerð og þetta verði samræmt því sem gildir um aðra presta. Hann telur að full sátt sé innan kirkjunnar um þetta mál. Þá hef ég líka haft samband við formann Prestafélags Íslands og formann Prófastafélagsins og fulltrúi héraðspresta hefur haft samband við mig og það virðist vera sem það sé skilningur og vilji allra innan kirkjunnar a.m.k. að þetta verði lagfært. (Gripið fram í: Blessað í bak og fyrir.) Blessað í bak og fyrir eins og hv. þm. segir.

Ég legg því til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til hv. allshn. til afgreiðslu.