Frumvarp um Tækniskólann

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:05:26 (4165)

1999-03-01 15:05:26# 123. lþ. 74.1 fundur 301#B frumvarp um Tækniskólann# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Um síðustu áramót tók gildi rammalöggjöf um háskólastigið. Mjög brýnt var orðið að setja slíka löggjöf enda hefur háskólum farið fjölgandi hér á landi. Það er mjög gott og ber vott um að menntastig þjóðarinnar fari hækkandi. Í kjölfarið hefur hæstv. menntmrh. flutt frumvörp að lögum um einstaka háskóla, sem er mjög rökrétt, og hafa þau ýmist verið samþykkt sem lög frá hv. Alþingi ellegar eru til vinnslu í hv. menntmn. og verða vonandi afgreidd sem lög frá þinginu áður en því lýkur í vor.

Hins vegar hefur enn ekki litið dagsins ljós frv. til laga um Tækniskóla Íslands. Rétt er að rifja upp að Tækniskólinn gegnir afskaplega mikilvægu hlutverki, ekki síst með aukinni áherslu á starfsmenntun. Það er rökrétt að til staðar sé sem æðra menntastig, skóli sem tekur við nemendum af framhaldsskólastigi í starfsmenntun. Ég spyr því hæstv. menntmrh. hvað valdi því að ekki hafi komið frv. um Tækniskóla Íslands og hvað hann hafi í hyggju varðandi þann skóla.