Nefnd um kynhlutlaust starfsmat

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:17:40 (4175)

1999-03-01 15:17:40# 123. lþ. 74.1 fundur 303#B nefnd um kynhlutlaust starfsmat# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda alveg sérstaklega fyrir að hefja máls á þessu. Það tilraunaverkefni, eins og kom réttilega fram að átti að standa í 18 mánuði, hefur staðið í bráðum þrjú ár. Því verki er lokið og fyrir liggur skýrsla sem er mikill fengur og ágætlega unnin enda hefur verið lögð í hana miklu meiri vinna en var upphaflega fyrirhugað. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem komu að verkinu fyrir ákaflega góð störf og einnig þeim sem voru tilraunapersónurnar í viðkomandi stofnunum. Skýrslan er tilbúin, starfsmaðurinn er kominn í aðra vinnu. Hann var ekki launaður af Jafnréttisráði, hann var launaður af félmrn. og hafði aðstöðu þar en ekki hjá Jafnréttisráði og hann er kominn til annarra starfa núna. Skýrslan verður send þeim einstaklingum sem sátu í starfshópnum og þeim gefst tækifæri til að gera athugasemdir sem verða látnar fylgja skýrslunni ef þeir gera athugasemdir við hana. Hún verður kynnt rækilega þegar þeir hafa fengið tækifæri til að gera athugasemdir sínar eða ef þeir vilja gera athugasemdir verður hún prentuð og kynnt. Ég held ég geti fullyrt að henni verður dreift á Alþingi ef tekst að ljúka því verki áður en þingi lýkur en ég mun hlutast til um að alþingismönnum verði send skýrslan. Ég man ekki hvort Jafnréttisráð tók sérstaka ákvörðun eða gerði neina samþykkt um málið eða lokin en ég hafði samráð við framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs um að á þessum tímapunkti væri tímabært að þakka nefndinni fyrir vel unnin störf.