Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:23:30 (4178)

1999-03-01 15:23:30# 123. lþ. 74.1 fundur 304#B undirritun Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Fyrir rösklega hálfu öðru ári eða 29. ágúst 1997 ritaði hæstv. umhvrh. merka grein í Morgunblaðið, undir fyrirsögninni: ,,Loftslagsbreytingar``. Ég vildi leyfa mér að vitna aðeins í greinina, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

,,Stefnt er að því að ná samkomulagi um lagalega bindandi ákvæði um losunarmörk fyrir gróðurhúsalofttegundir sem gildi fyrir einstök ríki. Ef allt fer að óskum verður bókun við samninginn undirrituð af þjóðum heims í Kyoto í Japan í desember nk. Bókunin mun væntanlega setja iðnríkjum ákveðnar skorður við hversu mikið þau mega losa út í andrúmsloftið á komandi árum og áratugum af þeim lofttegundum sem valda gróðurhúsaáhrifunum.``

Síðar segir í greininni: ,,... en ég tel að í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum beri stjórnvöldum að marka stefnu á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga um málið. Í ljósi þess hve afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar, er aðgerðarleysi ekki valkostur. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að ef gróðurhúsaáhrifin gera verulega vart við sig er talið hugsanlegt að það hafi áhrif á hafstrauma við Ísland og breytingar á þeim gætu kippt fótunum undan lífsafkomu þjóðarinnar.``

Nú spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort eitthvað hafi breyst að hans mati. Hafa einhverjar þær upplýsingar komið fram sem dragi úr þeim áhrifaríku orðum sem hæstv. ráðherra festi á blað í ágústmánuði 1997? Spurningin er borin fram í ljósi þess að hæstv. ríkisstjórn hefur valið þann kost að undirrita ekki fyrir tilskilinn frest bókunina frá Kyoto.