Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:29:11 (4181)

1999-03-01 15:29:11# 123. lþ. 74.1 fundur 304#B undirritun Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins um það sem ég sagði að á Buenos Aires-þinginu hefði komið fram að ekki væri nóg að gert og menn teldu að betur hefði þurft að miða með ýmis atriði við að framfylgja Kyoto-bókuninni voru að sjálfsögðu hin almennu viðhorf, ekki bara íslensk viðhorf. Þau geta kannski átt við en það fólst ekki beint í orðum mínum heldur það sem hefði komið fram á þinginu í Buenos Aires, að almennt væru menn óánægðir með árangurinn frá Kyoto-ráðstefnunni. Það var hið almenna viðhorf fulltrúa þjóðanna eins og ég hygg að hv. þm. viti nokkuð vel þar sem hann hefur fylgst vel með málunum og var sjálfur staddur á Buenos Aires-þinginu. Íslensk stjórnvöld hafa verið að framfylgja og vinna samkvæmt framkvæmdaáætlun sem þau hafa sett sér. Einstök ráðuneyti hafa verið að vinna að málunum hvert fyrir sig og þegar talað er um lífsafkomu þjóðarinnar í tilvitnaðri grein er auðvitað verið að tala um hættu á breytingum á hafstraumum sem gæti þýtt það að hér verði e.t.v. illbyggjanlegt og gæti það þá ekki bara haft áhrif á mögulega búsetu heldur á fiskveiðar og aðrar efnahagslegar undirstöður þjóðfélags okkar.