Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:30:32 (4182)

1999-03-01 15:30:32# 123. lþ. 74.1 fundur 304#B undirritun Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hver og einn getur síðan svarað fyrir sig hvort það séu eðlileg viðbrögð íslenskra stjórnvalda að ætla að skerast úr leik í sambandi við þetta örlagamál, skerast úr leik í viðleitni þjóða til að ná tökum á þessu erfiða máli. Hæstv. umhvrh. svaraði því ekki beint en hver og einn getur lesið í hans mál hvernig hann metur stöðuna. Hér er auðvitað óhjákvæmilegt, virðulegur forseti, að rætt verði við forustu ríkisstjórnarinnar sem greinilega gerir lítið með orð hæstv. umhvrh. um þá sameiginlegu niðurstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar að standa utan við það samkomulag sem þarna var um að ræða þrátt fyrir að Ísland hafi fengið kostakjör miðað við aðrar þjóðir í Kyoto í umræddri bókun.