Bifreiðakaupastyrkir til fatlaðra

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:33:03 (4184)

1999-03-01 15:33:03# 123. lþ. 74.1 fundur 305#B bifreiðakaupastyrkir til fatlaðra# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég fékk skriflegt svar 5. janúar sl. frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um bifreiðakaupastyrki til fatlaðra. Í svari hæstv. ráðherra kemur fram að árið 1995 voru veittar 160 millj. kr. af fjárlögum íslenska ríkisins til að greiða niður bifreiðakaup fatlaðra. Ári seinna eða árið 1996 er þessi fjárhæð komin niður í 80 millj. Hún hefur verið skorin niður um helming á milli ára þrátt fyrir það að þeir sem sóttu um þessa styrki hafi verið jafnmargir eða fleiri en árið áður og árin áður. Einungis einn þriðji þeirra sem sótt hafa um þessa styrki hefur fengið úthlutun.

Í svarinu kemur einnig fram að tillögur nefndar sem hæstv. heilbrrh. skipaði séu til skoðunar í ráðuneytinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist leggja til hækkun á bifreiðakaupastyrkjum til fatlaðra. Ég spyr hæstv. ráðherra í öðru lagi, hvort von sé á tillögum ráðuneytisins. Með leyfi forseta stendur svo í svarinu:

,,Nefnd sem skipuð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að gera tillögur um úrbætur í bifreiðakaupamálum hreyfihamlaðra hefur skilað af sér með ítarlegu nefndaráliti. Þessar tillögur hafa verið í athugun og til endurskoðunar í ráðuneytinu nú undanfarið og munu væntanlega koma fram sem frumvarp á þessu þingi þar sem lagðar verða til nokkrar breytingar á þessum málaflokki.``

Ég vænti svara frá hæstv. ráðherra.