Aflaheimildir dagróðrabáta

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:39:30 (4190)

1999-03-01 15:39:30# 123. lþ. 74.1 fundur 306#B aflaheimildir dagróðrabáta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til sjútvrh. vegna málefna smábáta sem róið hafa á grundvelli svonefndra dagatakmarkana. Samkvæmt lagabreytingum í janúar í tengslum við svonefndan kvótadóm var þessum hópi gert að velja milli tveggja kosta, ég hygg að flestir mundu reyndar segja afarkosta, nú fyrir 1. mars, þ.e. fyrir daginn í dag.

Það hefur verið megn óánægja með þann hlut sem þessum hópi er ætlaður samkvæmt niðurstöðu stjórnarflokkanna frá því í janúar og umræður uppi meðal smábátasjómanna um hvort eitthvað verði gert til að lagfæra stöðu þessa hóps, t.d. með því að bæta einhverjum aflaheimildum við þann pott sem þessi dagabátar eiga að skipta á milli sín, hvorn kostinn sem þeir kunna að velja. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. af þessu tilefni hvort nokkrar lagfæringar hafi verið ræddar í hæstv. ríkisstjórn til handa þessum hópi. Það er ekki seinna vænna en að fara að fá upplýsingar um það og hrinda því þá í framkvæmd með breytingum í þinginu áður en það fer heim, og ef svo er, hvaða upplýsingar hæstv. ráðherra geti þá veitt um stöðu málsins.