Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:09:09 (4199)

1999-03-01 16:09:09# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:09]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt fyrir okkur stjórnarandstæðinga að taka þátt í þessari umræðu því það er einfaldega þannig að hæstv. landbrh. hefur nú um nokkurt skeið unnið að því að selja þessa verksmiðju og heimild hefur verið í lögunum allt frá árinu 1994 til að selja verksmiðjuna. Eins og hæstv. landbrh. rakti áðan hefur verið unnið markvisst að því a.m.k. frá árinu 1996. Það er því alveg ljóst að sú stefna hefur verið skýr um langt skeið að verksmiðjan yrði seld. Hæstv. landbrh. rakti það mjög ítarlega í ræðu sinni áðan hvernig sagan í þessu máli er. Hins vegar nefndi hann það ekki sérstaklega að þetta söluferli sem nú er komið af stað er u.þ.b. tveggja mánaða gamalt. Hópur undir forustu kaupfélaganna, þar sem KEA hefur leitt hjörðina, lagði áherslu á að fá að gera tilboð í eða kaupa verksmiðjuna. Það var í byrjun janúar sem það átti sér stað. Síðan var verksmiðjan auglýst til sölu fyrir u.þ.b. fimm eða sex vikum. Í kjölfarið fór fram það ferli sem við öll þekkjum. Það er dálítið umhugsunarvert, virðulegi forseti, að hv. þm. Hjálmar Árnason, einn af stjórnarþingmönnum og einn af þeim þingmönnum sem tilheyra sama flokki og landbrh. skuli koma hér upp núna og tala á þann hátt sem hann gerði. Í fyrsta lagi held ég, virðulegi forseti, að ekki sé hægt að skýra það öðruvísi en að hann sé að lýsa vantrausti á hæstv. landbrh. Hann er búinn að vinna að þessum málum í þrjú eða fjögur ár og með þá stefnu skýra að selja verksmiðjuna þannig að hann hlýtur með þeim orðum sem hann lét frá sér fara áðan að vera að lýsa vantrausti á hæstv. landbrh. Enn fremur fordæmdi hann verk einkavæðingarnefndar sem heyrir beint undir forsrh. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þau orð sem hann lét frá sér fara áðan eigi líka við hæstv. forsrh. Þetta eru mjög merk pólitísk tíðindi að stjórnarliðar skuli tala með þessu móti um verk þeirra eigin ráðherra.