Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:21:32 (4204)

1999-03-01 16:21:32# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:21]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þessi viðbrögð og umræða koma seint fram. Búið er að vinna að sölunni í mörg ár eins og fram hefur komið og því eru andmælin með hraða snigilsins eins og fram kom áðan.

Annað mál er að áburðurinn sem framleiddur er í Gufunesi er hrein vara framleidd með rafmagni og tengist þannig umhverfisstefnu stjórnvalda. Annars staðar er framleitt með olíu. Íslenskur áburður, þ.e. blandaði áburðurinn, er lagaður að íslenskum aðstæðum og íslenskum jarðvegi og hentar því afar vel.

Samkvæmt kaupsamningi er það vilji og ætlun væntanlegs kaupanda að framleiða áfram áburð fyrir íslenskan markað. Hins vegar er ekki sett inn í kaupsamninginn skýrara ákvæði um slíkt. Ég vil því beina því til hæstv. landbrh. og ríkisstjórnarinnar að gæta vel að því að framleiddur verði áburður sem dreift verði á íslenskan markað. Hann þyrfti að vera sambærilegur að gæðum og verið hefur samkvæmt því þróunarstarfi sem átt hefur sér stað í framleiðslunni hér á landi.

Það er nefnilega ekki hægt að þinglýsa þessu ákvæði um vilja og ætlun kaupanda. Hann getur skipt um skoðun á morgun og þar þarf því að hafa á öruggan fyrirvara.

Herra forseti. Landbúnaðarvara margra annarra þjóða en okkar er menguð af þungmálum. Við megum ekki flytja inn áburð sem er mengandi þannig að íslenskar landbúnaðarvörur, sem við státum af að séu hreinar og ómengaðar, mengist svo að við getum ekki lengur keppt við aðrar vörur á grundvelli hreinleika íslensku vörunnar.