Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:27:44 (4207)

1999-03-01 16:27:44# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:27]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem og þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls.

Varðandi málefnaflutning hv. stjórnarandstöðu vil ég segja að hann er með ólíkindum. Rök í þessu máli voru nánast engin hjá hv. stjórnarandstæðingum. Þetta eru upphrópanir, samsæriskenningar og annað í þeim dúr. Það er eins og þeir furði sig á því að stjórnarþingmenn skuli fara fram á utandagskrárumræðu til að koma af stað málefnalegri umræðu í hv. Alþingi. Stjórnarandstaðan gerir sig seka um að fara í einfaldar gamaldags málæfingar í stað þess að færa rök fyrir máli sínu.

Til að létta hugarangri stjórnarandstæðinga og slá á allt samsæristal þeirra vil ég að gefnu tilefni taka fram að ég styð hæstv. ríkisstjórn (Gripið fram í.). Ég styð hæstv. landbrh. og ég styð sölu ríkiseigna þegar við á.

Það sem ég hef vakið athygli á hér er einfaldlega að meta þurfi hvenær eðlilegt sé að selja. Aðstæður geta breyst þannig að taka þurfi mál til endurskoðunar. Ég hef velt því upp í umræðunni að aðstæður kunni að kalla á endurskoðun þessara áforma. Hæstv. ráðherra hefur upplýst ýmislegt í málinu sem ég taldi hv. stjórnarandstöðu hafa gagn af.

Meginkjarni málsins er sá að Áburðarverksmiðjan er gullmoli og þar þarf að tryggja áframhaldandi framleiðslu á vetni. Um það á umræðan að snúast og ekkert annað. Á þeim forsendum hefur verið farið fram á það við hæstv. ráðherra að áformin um söluna verði endurskoðuð. Um annað snýst málið ekki.