Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:29:55 (4208)

1999-03-01 16:29:55# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég taka fram að það er ekki tryggt, eins og ég reyndi að segja í upphafi umræðunnar og held mig við enn, að þessi verksmiðja verði rekin áfram þó hún verði í eigu ríkisins. Óvissan um það mál er það stærsta og erfiðasta sem við er að eiga í umræðunni allri. Það er vandlifað þegar maður er skammaður fyrir að fara með hraða snigilsins og jafnframt fyrir að fara ekki með hraða snigilsins. Þá velti ég fyrir mér hvernig ætti að taka á svona máli. Hvernig ætti að taka á því er svona söluferli er sett í gang?

[16:30]

Af hverju reyndum við að hraða ferlinu að þessu sinni? Það var einmitt vegna þess að hætta var á innflutningi á áburði á þessu vori og þar með væri grundvellinum kippt undan starfsemi verksmiðjunnar. Sú hætta er auðvitað enn fyrir hendi og verður áfram. Þess vegna er ekki hægt að skylda hvorki ríkið né nýjan eiganda, hvað sem hann kann að heita, hvort sem hann er athafnamaður eða ekki, til þess að halda áburðarframleiðslu áfram hvað sem tautar. Við höfðum ekki og við töldum ekki að sú kvöð væri á ríkinu. Hún er það ekki. Hún er það ekki nema svo lengi að það sé talið skynsamlegt og að gerlegt sé að gera það án þess að greiða áburð verulega niður, sem er kannski það sem menn eru að tala um hér.

Það var ekki hægt að leggja slíkt til af minni hálfu. Það var hættan á því að af innflutningi yrði strax í vor sem ýtti á það að reyna að flýta þessu ferli nú eftir áramótin þegar hugmyndir komu upp um söluna.

Varðandi vetnishugmyndirnar þá eru þær heldur ekkert óljósari á þessu stigi en þær voru á fyrri stigum málsins og í því ágæta vinnuferli sem hv. málshefjandi hefur beitt sér fyrir og á heiður skilinn fyrir. Samstarfsaðilunum, þeim þremur stóru risum sem hér hafa verið nefndir, Daimler-Benz, Shell og Norsk Hydro, var gerð grein fyrir því að þetta söluferli væri í gangi. Og það er með ólíkindum ef þessir stóru erlendu risar hafa meiri tiltrú á ríkisrekstri á Íslandi en á starfsemi einhvers athafnamanns. Ég velti því nú fyrir mér.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Þetta ferli er á því stigi nú að málið verður lagt fyrir ríkisstjórnina á morgun og ég mun leggja þar til að farið verði að tillögum einkavæðingarnefndarinnar um að hæsta tilboðinu verði tekið. Það breytir engu um þá óvissu sem fyrir var um (Forseti hringir.) framleiðslu áburðar og framleiðslu vetnis. Ég vona sannarlega að hvort tveggja haldi áfram, enda kveðið á um hvort tveggja í kaupsamningnum.