Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:35:27 (4220)

1999-03-02 13:35:27# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:35]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þessar vikurnar er að ganga eftir það sem stjórnarandstaðan óttaðist um nýja húsnæðislánakerfið. Ófremdarástand ríkir á leigumarkaðnum þar sem nýja kerfið hefur ýtt upp leigunni og leitt til langra biðraða eftir leiguhúsnæði en 1.200 einstaklingar og fjölskyldur bíða nú eftir leiguhúsnæði á landinu öllu og ríkir hreint neyðarástand á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst hjá einstæðum foreldrum sem sumir hverjir eru nánast á götunni.

Klúður og seinagangur í afgreiðslu umsókna er að grafa undan kerfinu og hefur vafið upp á sig kostnaði og miklum óþægindum fyrir íbúðarkaupendur og seljendur en samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa einungis 20% umsókna verið afgreiddar frá áramótum. Óraunsætt greiðslumat mun valda greiðsluerfiðleikum og gjaldþroti heimila sem aldrei fyrr. Ljóst er að öryggi og stöðugleikanum í húsbréfakerfinu er nú alvarlega ógnað með klúðrinu hjá Íbúðalánasjóðnum en jafnan þegar framsóknarmenn taka við húsnæðismálum virðist það vera ávísun á öngþveiti í húsnæðismálum. Kerfi sem var einfalt og gekk fullkomlega upp hefur verið fórnað og við tekið kerfi með flóknu og dýru vinnuferli sem er algjörlega snúið á haus og er hin raunverulega ástæða fyrir löngum biðtíma en ekki tölvuvandamál sem hæstv. ráðherra ber fyrir sig. Fólkið gerir sjálft sitt eigið greiðslumat og á grundvelli þess kauptilboð í íbúð áður en það fer í greiðslumat í banka. Ráðgjöf sem kemur eftir að kaupendur hafa tekið ákvörðun um íbúðakaup er auðvitað algerlega gagnslaus auk þess að leiða til verulegrar hættu á vanskilum. Allt þetta klúður ráðherrans hefur því einungis leitt til flókins vinnuferlis með ærnum kostnaði og fyrirhöfn fyrir íbúðakaupendur.

Greiðslumatið er líka ein samfelld endaleysa sem leitt getur til mikilla greiðsluerfiðleika í húsnæðislánakerfinu og jafnvel fjölda gjaldþrota á komandi mánuðum og missirum. Ekki verður annað séð en nýtt greiðslumat opni fyrir að 30 til allt að 50% af heildarlaunum viðkomandi geti farið til greiðslu á húsnæðiskostnaði en það hef ég fengið staðfest af Þjóðhagsstofnun. Þar kemur fram að fjögurra manna fjölskylda með 250 þús. kr. mánaðartekjur gat ráðstafað í eldra greiðslumati 45 þús. kr. í afborganir og vexti af lánum en 95 þús. kr. í nýja mati ráðherrans. Miðað við 500 þús. kr. tekjur gat þessi fjölskylda ráðstafað 90 þús. kr. áður í afborganir og vexti í eldra greiðslumati en nú 250 þús. kr. í stað 90 þús. kr. áður í nýja greiðslumatinu eða nærfellt 50% af tekjum. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera sér ljóst að hann er að kalla mikla greiðsluerfiðleika yfir heimilin í landinu og verulega áhættu fyrir Íbúðalánasjóðinn og þar með skattgreiðendur.

Ástæða er til að minna á að þegar húsbréfakerfinu var komið á var greiðslumatið miðað við að 30% af heildarlaunum gæti farið til greiðslu á húsnæðiskostnaði. Það stóð aðeins í nokkra daga og var þá lækkað niður í 20% einfaldlega vegna þess að sérfræðingar töldu að fólk stæði aldrei undir svo háu mati. Hæstv. ráðherra verður auðvitað að svara því undanbragðalaust hvað hefur breyst svo í umhverfinu að skyndilega sé hægt að hækka viðmiðunarmörkin í greiðslumatinu fyrir flesta íbúðakaupendur eins og fyrir meðalfjölskyldu með meðaltekjur úr 18% í um 30% og allt upp í 50% sem er auðvitað ekkert annað en ávísun á vanskil og greiðsluerfiðleika. Það er engu líkara en nýtt mat hæstv. ráðherra byggi á því að framfærslukostnaður heimilanna hafi frá síðustu áramótum lækkað um meira en helming og því sé allt í lagi að 30 til allt að 50% af heildarlaunum renni nú til afborgana og vaxta af lánum í stað 18% áður. Hæstv. ráðherra er kominn í háskalegan leik með heimilin í landinu sem leitt getur til mikilla greiðsluerfiðleika í húsnæðislánakerfinu og jafnvel fjölda gjaldþrota á komandi mánuðum og missirum. Ráðherrann virðist ætla að fá sér skjól rétt fyrir kosningar með því að galopna húsbréfakerfið fyrir öllum og breiða þannig yfir húsnæðisneyð þeirra sem þurfa á leiguhúsnæði að halda.

Hæstv. ráðherra skuldar þingi og þjóð skýringar sem nú er leitað eftir með eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Hvaða afleiðingar telur ráðherra að það hafi fyrir heimilin í landinu að hækka viðmiðunarmörkin í greiðslumatinu í húsbréfakerfinu fyrir flesta íbúðakaupendur eins og fyrir meðalfjölskyldu með meðaltekjur úr 18% í um 30% af heildarlaunum?

Var leitað álits fasteignasala, Húsnæðisstofnunar og viðskiptabanka á nýju vinnuferli umsókna í húsbréfakerfinu?

Hvaða kostnaður hefur orðið því samfara að breyta vinnuferli umsókna í húsbréfakerfinu og koma á fót starfsemi Íbúðalánasjóðs?

Hvað má áætla að margir þeirra umsækjenda sem rétt áttu á félagslegri íbúð, annars vegar eignaríbúð og hins vegar leiguíbúð á síðasta ári fái úrlausn hjá nýja Íbúðalánasjóðnum?

Hverja má áætla aukna eftirspurn af leiguhúsnæði í Reykjavík vegna lokunar félagslega íbúðalánakerfisins?