Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:48:58 (4223)

1999-03-02 13:48:58# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka guði fyrir að kosningar skuli vera í nánd. Hér stóð hæstv. félmrh., sá ráðherra sem er ábyrgur fyrir húsnæðismálum í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og sagði að allt væri í himnalagi. Íbúðalánasjóður væri kominn yfir byrjunarörðugleikana.

Íbúðalánasjóður hefur aðeins afgreitt 20% af þeim umsóknum sem borist hafa til sjóðsins. Í aðeins 20% tilvika hefur verið gengið frá kaupsamningum. Meðan ráðherra húsnæðismála segir að allt sé í himnalagi þá hafa biðraðir eftir leiguhúsnæði aldrei verið lengri. Félag einstæðra foreldra hefur lýst yfir neyðarástandi. En ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. ráðherra Páll Pétursson, segir að hér sé allt í himnalagi.

Tvennt í máli hans vekur sérstakar áhyggjur. Það eru yfirlýsingar hans varðandi greiðlumatið. Hann segir það byggt á raunsærri grunni en áður. Áður var það svo í húsbréfakerfinu að fjölskyldur þurftu að reikna með því að verja 18% af tekjum sínum til að greiða niður lán. Nú er þessi prósentutala komin upp undir 50%. Fjölskylda með 180 þús. kr. á mánuði og tvö börn, verður að reikna með að þurfa að verja 30% af tekjum sínum til húsnæðiskaupa, 52 þús., og á að geta lifað af því sem eftir er. Hæstv. ráðherra segir að þetta sé byggt á raunsæju mati.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Getur verið að ríkisstjórnin, sem hæstv. ráðherra Páll Pétursson á sæti í, hafi lækkað framfærslukostnað fjölskyldnanna um helming? Getur það verið? Getur verið að það sé verið að gefa launafólki á Íslandi falsvonir?