Starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat

Þriðjudaginn 02. mars 1999, kl. 13:51:39 (4224)

1999-03-02 13:51:39# 123. lþ. 75.94 fundur 310#B starfsemi Íbúðalánasjóðs og nýtt greiðslumat# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er skelfilegt að hugsa til þess að félagslega húsnæðiskerfið hafi verið stopp síðan í fyrravor. Ástandið er mjög slæmt og þeir sem gerst þekkja telja að nú þurfi átak á borð við það þegar þúsund framkvæmdaíbúðir voru byggðar.

Í Reykjavík var síðasta úthlutun í júní, fyrir ári, og fáar fjölskyldur fengu úrlausn eftir það. Í Kópavogi voru átta íbúðir keyptar inn í kerfið í fyrra. Eftir áramót hafa engar innlausnaríbúðir komið inn. Nú eru þar yfir 20 fjölskyldur á neyðarlista. Þar fengust 30 lánaheimildir til viðbótarlána fyrir allt þetta ár, 19 eru þegar farnar. Hópurinn sem leitar eftir viðbótarlánum samanstendur af fólki með önnur viðmið og ívið hærri tekjur en þeir sem voru á biðlista. Minna má á að af 114 sem voru á biðlista í Kópavogi í fyrra reyndust 11 eiga möguleika í nýja kerfinu.

300--400 manns voru á biðlista í Reykjavík þegar kerfinu var lokað og það er allsendis óvíst hvort nýja kerfið gagnast þeim. Þeir sem voru á biðlista eftir félagslegri eignaríbúð samkvæmt fyrri lögum leita nú í örvæntingu að leiguhúsnæði á leigumarkaði þar sem verðið er uppsprengt. Það vantar 400--500 leiguíbúðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu miðað við þann fjölda sem bætist á leigumarkaðinn eftir gildistöku nýju húsnæðislaganna. Þetta kom fram á fundi einstæðra foreldra í síðustu viku. Biðtíminn eftir leiguhúsnæði er hjá þeim þrjú til fjögur ár. Okkur þingmönnunum berast erindi þar sem fólk lýsir húsnæðiserfiðleikum sínum og spyr hvort við getum eitthvað gert. Svarið er nei. Við þessar aðstæður á fólk þann eina kost að vinna óraunsætt greiðslumat til kaupa á frjálsum markaði. Það verður að treysta á að þegar kauptilboð liggi fyrir þá samþykki bankinn galið greiðslumat með þeim afleiðingum sem það mun hafa.

Herra forseti, þegar á allt er litið og við bætist að starfsmönnum í Íbúðalánasjóði hefur fjölgað frá því sem var í Húsnæðisstofnun, að breytingin á stofnuninni hefur kostað stórfé, þá sýnist mér að ráðherrann skuldi Alþingi betri svör en þau sem hér hafa verið gefin.